Farið yfir undirskriftir

Þingmenn greiddu atkvæði um Icesave-samninginn í gær.
Þingmenn greiddu atkvæði um Icesave-samninginn í gær. mbl.is/Ómar

Creditinfo mun samkeyra þær undirskriftir sem skráðar voru á kjosum.is, þar sem skorað er á forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Rúmlega 37.000 undirskriftir hafa verið sendar til úrvinnslu.

Aðstandendur síðunnar segja að í framhaldinu verði framkvæmd áreiðanleikakönnun. Ekki liggur fyrir hver muni framkvæma hana.

Forseti Íslands hefur boðað aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar kjosum.is til Bessastaða klukkan 11 í fyrramálið til að afhenda undirskriftirnar.

„Undirskriftirnar verða afhentar þá. Þær undirskriftir sem hafa safnast fram að þeim tíma sem við fengum staðfestan fundartíma með forseta. Þær undirskriftir sem berast eftir það verða ekki afhentar forseta, en öllum er frjálst að skrá sig á vefnum,“ segir Axel Þór Kolbeinsson, einn aðstandenda síðunnar, í samtali við mbl.is. Þetta séu rúmlega 37.000 undirskriftir.

Aðspurður segist Axel Þór telja að á bilinu 1-2% undirskrifta  kunni að detta út þegar búið verði að yfirfara þær. „Eingöngu það sem næst að staðfesta verður afhent forsetanum,“ segir Axel Þór.

„Ég trúi ekki að það verði fleiri en þúsund [undirskriftir] sem detti út,“ bætir hann við. Þetta eigi þó eftir að koma betur í ljós og fari eftir gæðum gagnanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert