Óvíst hvenær Landeyjahöfn opnar

Sanddæluskipið Skandia.
Sanddæluskipið Skandia.

Sanddæluskipið Skandia getur ekkert unnið við dælingu úr Landeyjahöfn í dag vegna veðurs. Veðurútlit næstu daga er ekki gott. Guðjón Egilsson, hjá Íslenska gámafélaginu, sem gerir skipið út, treystir sér ekki til að spá fyrir hvenær höfnin opnar.

Guðjón sagði að vel hefði gengið að vinna við sanddælingu í gær og þá hefði verið unnið allan daginn og fram eftir kvöldi þangað veðrið fór að versna. Hann sagði að dýpi við höfnina hefði ekki verið mælt síðustu daga og hann sagðist því ekki geta svarað því með neinni nákvæmni hversu mikil vinna væri eftir áður en hægt væri að opna höfnina.

Gunnar sagði að mikil aska væri í því efni sem Skandia hefði verið að dæla upp. Askan er úr gosinu ír Eyjafjallajökli.

Gunnar sagði að það væru ekki margir dagar það sem af er ári þar sem hægt hefði verið að vinna við sanddælingu úr Landeyjahöfn. Skipið kom ekki til landsins fyrr en í febrúar, en Guðjón sagðist efast um að nokkuð hefði verið hægt að vinna í janúar vegna veðurs. Síðan skipið kom til landsins hefur ölduhæð sjaldan farið niður fyrir tvo metra við Landeyjahöfn.

„Okkur fannst við vera orðnir nokkuð góðir í gær þegar ölduhæð fór niður í 1,6 metra, en síðan versnaði veðrið. Okkur vantar norðanátt,“ sagði Guðjón. Sunnanáttir hafa verið ríkjandi að undanförnu og ekki er sjáanlegt að það breytist neitt í bráð. Ölduspá Siglingastofnunar gefur ekki tilefni til bjartsýni um að Skandia geti unnið mikið næstu daga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert