Kjaraviðræðum ljúki um miðjan mars

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að viðræður um gerð nýs kjarasamnings gangi vel. Hann segist vonast eftir að niðurstað lægi fyrir í viðræðunum um miðjan næsta mánuð.

Um miðjan þennan mánuð náðist samkomulag á milli Samtaka atvinnulífsins og landssamband ASÍ um að hefja vinnu við gerð langtímasamnings til þriggja ára sem hefði það að markmiði að auka kaupmátt og viðhalda stöðugleika í hagkerfinu. Á heimasíðu Samiðnar segir að samkomulagið hafi falið í sér að ef næðist málefnaleg samstaða um innihald samningsins fyrir lok febrúar þá myndi launafólk fá eingreiðslu fyrir næstu þrjá mánuðina þrátt fyrir að endanlegri afgreiðslu á kjarasamningnum væri ekki lokið.  Þessi tími þ.e. mars, apríl og maí væri ekki síst hugsaður til að ganga frá málum er snúa að ríkisvaldinu þ.á.m. stjórnun fiskveiða.

Vilhjálmur sagði að þessi vinna gengi vel. Menn hefðu verið að ræða saman eða í sitthvoru lagi að undanförnu. Viðræður við stjórnvöld væru ekki hafnar að neinu viti, en það væri að koma að þeim tímapunkti að samningsaðilar gætu farið að ræða við stjórnvöld.

Vilhjálmur sagði ljóst að menn myndu ekki klára viðræður fyrir mánaðamót, en vonandi fyrir miðjan næsta mánuð. Hugmyndin væri að launþegar fengju eingreiðslu áður en eiginlegur þriggja ára samningur tæki gildi. Hann sagði að ekki væri búið að negla niður hvenær þessi greiðsla yrði innt af hendi. Hann sagði að ekki væri farið að ræða breytingar á launalið samningsins.

Vilhjálmur sagði að öll landsambönd ASÍ tækju þátt í viðræðunum. Eina félagið sem stæði utan viðræðnanna væri Verkalýðsfélag Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert