Dómstólaleiðinni fylgir mjög mikil áhætta

Lárus Blöndal (l.t.h.). situr í samninganefnd Íslands sem falið var …
Lárus Blöndal (l.t.h.). situr í samninganefnd Íslands sem falið var að semja við Breta og Hollendinga.

„Að mínu mati snýst þetta ekki um að reyna að finna einhverja eina rétta niðurstöðu í hugsanlegu dómsmáli. Það eina sem við þurfum að átta okkur á er að dómstólaleiðinni fylgir mjög mikil áhætta og Reimar er bara að undirstrika það með ábendingum sínum.“ Þetta segir Lárus Blöndal lögfræðingur um ábendingar Reimars Péturssonar lögfræðings um vaxtakostnað í hugsanlegu dómsmáli um Icesave.

Lárus sat í samninganefnd sem samdi við Breta og Hollendinga um Icesave-málið, en þeim samningum hefur nú verið vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lárus lét reikna út hugsanlegan kostnað ef Ísland tapar dómsmáli vegna Icesave ef miðað væri við vexti sem Írum og Portúgölum stendur nú til boða. Niðurstaða þessara útreikninga er sú að kostnaðurinn gæti orðið yfir 700 milljarðar ef dómsmálinu lýkur árið 2014, en þá er miðað við 7% vexti sem eru þeir vextir sem Portúgal stendur til boða og að meðaltalsgreiðslubirgði af þessari vaxtaskuld væri um 40 milljarðar kr. á ári og greiðslutíminn væri til 2032. Þessir útreikningar voru unnir af sérfræðingum sem hafa aðstoðað samninganefndina í samningsferlinu.

Reimar Pétursson gagnrýndi þessa útreikninga í Morgunblaðinu í dag og bendir á að Lárus byggi á því að við þurfum að greiða höfuðstól kröfunnar en ekki bara lámarksupphæðina. Þá telur Reimar eðlilegra að miða við skaðabótavexti sem nú eru 3,5%.

Lárus sagði að hann hefði ekki ætlað sér að fara út í talnaleiki út af þessu máli. Hann hafi hins vegar bent á hver kostnaðurinn gæti hugsanlega orðið vegna þess að í umræðu um þetta mál hefðu menn stillt málum þannig upp að áhættan við Icesave-samninginn væri 25-250 milljarðar, en áhættan við dómstólaleiðina væri 0-140 milljarðar. Lárus sagði að enginn vissi fyrir víst hver niðurstaða dómstóla yrði, en talan 140 milljarðar væri langt frá því að vera einhver hámarkstala. Kostnaður Íslands af dómstólamáli gæti orðið miklu meiri. Ef menn væru yfirleitt að reyna að reikna verstu hugsanlegu útkomu af samningaleiðinni þá yrðu menn líka að gera það varðandi dómstólaleiðina.

„Mér sýnist að Reimar sé að reyna að setja upp dæmi um hvernig þetta gæti farið á besta veg, en ekki versta veg. Hann gerir t.d. ekki ráð fyrir því að það þurfi að reikna vexti frá því peningarnir voru greiddir þ.e. í nóv/des 2008. Ég tel fráleitt að Hollendingar og Bretar muni sætta sig við slíka niðurstöðu. Þá byggir Reimar á því að eingöngu þurfi að greiða vexti af lágmarksupphæðinni þó við vitum að það mun ekki verða í samræmi við kröfur gagnaðila okkar.“

Lárus sagði að ef byggt væri á þeim vöxtum sem Reimar notar af allri upphæðinni frá því að hún var greidd af Bretum og Hollendingum þá væri kostnaðurinn í dag þegar kominn yfir 200 milljarða og þá gætu menn ímyndað sér hver heildarkostnaðurinn yrði þegar allt væri uppgreitt. „Þetta er bara leikur að tölum og ég ætlaði mér aldrei að fara í slíkan leik. Ég hef hins vegar bent á að ef menn ætla yfirleitt að bera saman samningaleiðina og dómstólaleiðina þá þýðir ekkert að fullyrða um afleiðingar annarar leiðarinnar en skoða ekki sambærilega tilvik fyrir hina leiðina.“

Reimar telur eðlilegast að miða við vexti í skaðabótamálum en ekki vexti sem Portúgalir og Írar eru að greiða. Hann byggir þar á þeirri forsendu að málið fari fyrir íslenska dómstóla. Lárus sagðist telja ólíklegt breska heimsveldið muni stefna íslenska ríkinu fyrir íslenska dómstóla. „Þeir munu beita öðrum aðferðum.“ Hann sagði að ef málinu yrði hins vegar stefnt fyrir íslenska dómstóla þá þyrfti að hafa í huga að á ákveðnum tímapunkti breyttust skaðabótavextirnir yfir í dráttarvexti. Hann benti líka á að skaðabótavextir hefðu verið allt að 14% á fyrri hluta tímabilsins þó þeir séu mun lægri í dag. Lárus sagði að það væri ekki nóg að reikna þessa vexti til dagsins í dag eða þar til málaferlunum lýkur. Þá væri eftir að fjármagna þessa skuld því við gætum augljóslega aldrei greitt hana í einu lagi.  „Það er alveg sama hversu fast menn berja höfðinu við steininn; ef við töpum þessu dómsmáli þá verður kostnaðurinn gríðarlegur, meira að segja þó að beitt sé þeirri aðferð sem Reimar notar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert