Veiðileiðsögumenn mótmæla

Aðalfundur Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum lýsti furðu sinni á vinnubrögðum svæðisráðs þjóðgarðsins. Ekkert samráð hafi verið haft við félagið. Formaðurinn segir að eina fundarboðið hafi borist eftir að lokadrög að verndaráætlun voru gefin út. 

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, staðfesti verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs í gær. Hún sagðist vonast eftir sátt um áætlunina og kvaðst vera hugsi yfir ýmsum athugasemdum sem hafa borist um samgönguþátt hennar. Vill hún að komið verði á laggirnar samstarfsvettvangi fyrir hagsmunaaðila og útivistarmenn sem um garðinn fara. 

Í ályktun aðalfundar Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum segir að ekkert samráð hafi verið haft við stóran hluta hagsmunaaðila. Eins lýsti félagið andstöðu sinni við tilhæfulausar veiðitakmarkanir innan garðsins sem það telur vera í andstöðu við þau fyrirheit sem voru gefin í aðdraganda stofnunar garðsins. Eins því sem virðist vera flokkun ferðamanna í  ,,æskilega“ og  ,,óæskilega“ ferðamenn, eins og segir í ályktuninni.

Þórhallur Borgarsson, formaður félagsins, segir að aldrei hafi verið haft samband við félagið við vinnslu verndaráætlunarinnar. Það hefði verið boðað á einn fund eftir að lokadrög höfðu verið gefin út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert