Ríkislögmaður mælti gegn áfrýjun

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðrún Margrét Árnadóttir hrl., fulltrúi hjá embætti ríkislögmanns, mælti gegn því að dómi héraðsdóms vegna aðalskipulags Flóahrepps yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Umhverfisráðherra tók engu að síður ákvörðun um að áfrýja málinu og tapaði því.

Í minnisblaði umhverfisráðuneytisins vegna fundar með fulltrúa ríkislögmanns frá 29. september 2010 segir að það sé mat hennar að sú grein laganna sem deilt var um feli ekki í sér tæmingu upptalningu á heimildum til greiðslu kostnaðar vegna gerðs skipulags.

„Greinin útiloki því ekki að sveitarfélög fái greiddan þann kostnað sem upp á vantar, með samningi við þriðja aðila. Í því sambandi var bent á áralanga úrskurðarframkvæmd samgönguráðuneytisins þar sem sveitarfélögum hefur verið heimilað að innheimta útgjöld sveitarfélagsins á grundvelli samninga sem það hefur gert. Einnig vísaði GMÁ til álits umboðsmanns Alþingis í þessu sambandi sem staðfesti þessa niðurstöðu. Taldi GMÁ að lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 ættu því við í máli þessu varðandi heimildir sveitarfélaga að innheimta gjöld fyrir gerð skipulags,“ segir í minnisblaðinu.

Guðrún Margrét taldi að erfitt yrði að snúa niðurstöðu héraðsdóms við. Mat hennar væri „að ekki væru miklar líkur líkur til þess að héraðsdómi yrði hnekkt í hæstarétti. Verður því að líta svo á að ríkislögmaður mæli ekki með að málinu sé áfrýjað.“

Umhverfisráðuneytið tók engu að síður ákvörðun um að áfrýja málinu og tapaði því síðan í Hæstarétti.

Eftir að ráðherra ákvað að hafna skipulaginu fór Flóahreppur af stað með nýtt skipulagsferli. Í minnisblaðinu segir að líklegt sé að ráðherra verði búinn að fá þetta nýja skipulag til meðferðar áður en dómur fellur í Hæstarétti. „Ekki verður annað séð af þessu en að ef ráðherra er búinn að staðfesta aðalskipulag Flóarhrepps, þegar málið yrði dómtekið, þá myndi málinu verði vísað frá Hæstarétti.“

Bent er á að fyrir liggi beiðni í ráðuneytinu um að tekin yrði upp ákvörðun ráðuneytisins um höfnun á staðfestingu aðalskipulags vegna Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá janúar 2010, en sömu rök voru færð fyrir því að hafna því skipulagi. „Ef málinu verður áfrýjað mun þetta mál og mál Flóahrepps bíða afgreiðslu ráðherra þar til dómur Hæstaréttar liggur fyrir,“ segir í minnisblaðinu.

Áður en umhverfisráðherra tók ákvörðun um áfrýjun hafði hún einnig fengið minnisblað frá Hjalta Steinþórssonar hrl. en þar mælir hann með áfrýjun. Hann segir að rök héraðsdóms séu mjög einföld, aðeins þau að af því að það sé ekki sérstaklega bannað að framkvæmdaaðili greiði kostnað við gerð aðalskipulags þá verði að telja það heimilt. Hann segist telja þessa túlkun ótæka.

„Mér finnst augljóst að þrátt fyrir að sveitafélög njóti samningafrelsis eins og aðrir lögaðilar og þrátt fyrir sjálfsforræði þeirra þá verði að gera þá kröfu að samningar þeirra séu lögmætir en ég tel svo ekki vera ef samið væri við framkvæmdaaðila um greiðslu kostnaðar við aðalskipulag þar sem tekin er stefnumótandi (pólitísk) ákvörðun um landnotkun sem er ráðandi um framgang framkvæmdaáforma greiðandann. Væri þessu játað þá væri með sama hætti hægt að fallast á að Kópavogsbæ hefði verið heimilt að semja við ónefndan rekstraraðila skemmtistaðar um að hann greiddi hærra útsvar en aðrir greiðendur í sveitarfélaginu og að sá samningur hefði verið gerður við undirbúning ákvörðunar um framlengingu á starfsleyfi þjóðþekks rekstrar hans!,“ segir í minnisblaðinu.

Minnisblað umhverfisráðuneytisins

Minnisblað Hjalta Steinþórssonar

Minnisblað ráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert