Vill fá aðgang að tölvupóstum Geirs

Saksóknarar Alþingis, Sigríður Friðjónsdóttir og Helgi Magnús Gunnarsson.
Saksóknarar Alþingis, Sigríður Friðjónsdóttir og Helgi Magnús Gunnarsson. mbl.is/Kristinn

Óljós ákvæði laga um landsdóm ollu því að forsætisráðuneytið hafnaði kröfu saksóknara Alþingis um að afhenda afrit af tölvusamskiptum Geirs H. Haarde meðan hann var forsætisráðherra. Það er því landsdóms að ákveða hvort tölvupóstarnir verða afhendir.

Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, sagði að samkvæmt lögunum bæri henni að afla gagna um þau ákæruatriði sem er að finna í ályktun Alþingis um að höfða beri mál gegn Geir. Tölvupóstarnir gætu varpað ljósi á hvaða vitneskju Geir hefði haft um þá stófelldu hættu sem íslenskt efnahagslíf stóð frammi fyrir.

Krafa saksóknara er um að fá afhent öll tölvusamskipti Geirs á þeim tíma sem hann var forsætisráðherra, þ.e. frá 15. júní 2006 til 1. febrúar 2009. Ákæruatriðin varða hins vegar tímabilið frá febrúar til október 2008. Sigríður sagði hins vegar fyrir landsdómi að afla yrði gagna um aðdragandi þess að bankarnir komust í þrot, m.a. um hins svokölluðu minikrísu árið 2006, en þá stóð bankakerfið tæpt ef marka má rannsóknarskýrslu Alþingis.

Einar Karl Hallvarðsson, lögmaður forsætisráðuneytisins, sagði að ef þetta mál væri höfðað á grundvelli laga um sakamálarannsókn hefði ráðuneytið að öllum líkindum afhent tölvupóstsamskipti Geirs. Það væri hins vegar óljóst af landsdómslögunum hvort afhenta mætti póstana og því hefði þótt rétt að fá úrskurð landsdóms um þetta atriði.

Andri Árnason, lögmaður Geirs H. Haarde, gerði í upphafi ræðu sinnar alvarlegar athugasemdir við lögmæti málshöfðunarinnar. Hann benti sérstaklega á að Alþingi hefði kosið saksóknara til að sækja málið á nýju þingi, mörgum mánuðum eftir að ákæra var samþykkt, en í lögunum segir að „jafnframt“ skuli Alþingi kjósa saksóknara. Hann taldi því af þeim sökum að vísa ætti málinu frá.

Andri sagði að samkvæmt lögum um málsmeðferð ætti mál að vera fullrannsakað þegar gefin er út ákæra. Landsdómslögin samræmdust ekki sjónarmiðum um réttláta málsmeðferð. Lögin samræmdust ekki ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki væri því hægt að byggja á öllum ákvæðum landsdómsagana við afgreiðslu þess máls.

Andri hafnaði algerleg kröfu um saksóknara um að afhenda ætti tölvupóstana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert