Óvissa og erfið samskipti

Alistair Darling, fyrrum fjármálaráðherra Bretlands.
Alistair Darling, fyrrum fjármálaráðherra Bretlands. Reuters

Bresk stjórnvöld óttuðust að Íslendingar kæmu ekki hreint fram í bankahruninu 2008. Samskipti þjóðanna einkenndust af vantrausti og það gerði það að verkum að ekki var gripið til aðgerða, sem hefðu getað mildað fallið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali, sem Sigrún Davíðsdóttir, fréttamaður Ríkisútvarpsins, átti við Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands.

Rætt  var við Sigrúnu í Speglinum í Ríkisútvarpinu í kvöld, en Sjónvarpið sýnir síðar í kvöld viðtalsþátt Sigrúnar Davíðsdóttur við Darling.

Darling segir að allt hafi bent til þess að mikið fé hafi farið úr útibúum íslensku bankanna í aðdraganda hrunsins.  Í viðtalinu talar Darling um fund sinn með Björgvini Sigurðssyni, fyrrum viðskiptaráðherra, sem átti sér stað mánuði fyrir bankahrunið.

Darling segir að honum hafi þótt það undarlegt að Björgvin kom á fundinn í fylgd fimm embættismanna. Íslendingarnir hafi talað mikið á fundinum, en umræðuefnið hafi ekki verið það sem Darling átti von á, en hann hafði búist við að fyrst og fremst yrði rætt um vandamál íslensku bankanna.

Hann segir að sér hafi virst að menn hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir stöðu mála og segir að annaðhvort hafi verið að reyna að blekkja hann eða að ráðherra og embættismennirnir hafi verið að blekkja sjálfa sig.

Vegna þessa segir Darling að vantraust hafi skapast á þessum fundi og það hafi torveldað samskiptin á komandi mánuðum.

Í Speglinum sagði Sigrún að hina umdeildu setningu hryðjuverkalaganna hafi borið á góma í viðtalinu. Darling segir að vegna þess að peningar hafi verið fluttir úr íslensku bönkunum í Englandi, hafi verið nauðsynlegt að grípa til þessara laga. Einhvern veginn hafi þurft að binda enda á þessa peningaflutninga.

Sigrún spurði Darling út í frægt símtal hans og Árna Mathiessen, þáverandi fjármálaráðherra. Darling er afar ósáttur við að efni þess hafi verið lekið og segir að „Í heimi hinna fullorðnu geri menn ekki svoleiðis.“

Aðspurður sagðist Darling hafa fylgst vel með því sem var að gerast á Íslandi þessa örlagaríku daga og segir að sér hafi verið kunnugt um ummæli Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra, um að skuldir óreiðumanna yrðu ekki greiddar.

Hann segist hafa talið á þeim tíma að Davíð talaði þar fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar. Breska ríkisstjórnin hafi haft það á tilfinningunni að það ætti að bjarga íslenskum innistæðum en  láta þær erlendu eiga sig.

Darling segir að Bretum hafi þótt afar erfitt að eiga samskipti við Íslendinga á þessum tíma. Íslendingar hafi aldrei getað sagt af eða á, þeir hafi ekki gefið skýr svör og eilíf óvissa og vantraust hafi gert öll samskipti erfið.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert