Gæti skaðað LHG mjög að taka ekki erlend verkefni

Georg Lárusson, fyrir miðju, á ráðstefnu um björgunarmál við Ísland …
Georg Lárusson, fyrir miðju, á ráðstefnu um björgunarmál við Ísland í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Til þess að geta haldið úti Landhelgisgæslunni með lágmarksútbúnaði hér heima á Íslandi og kringum landið þá höfum við þurft að sækja okkur verkefni til útlanda,“ segir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar (LHG), en til skoðunar er að Gæslan taki að sér fiskveiðieftirlit á vegum ESB í vor og haldi áfram þátttöku í landamæravörslu og aðstoð við flóttamenn á Miðjarðarhafi á vegum landamærastofnunar ESB.

„Þátttaka í þessum verkefnum er okkur afar mikilvæg,“ segir Georg. „Ef við gerum þetta ekki þurfum við að draga verulega saman og það mun skaða Landhelgisgæsluna alvarlega til langs tíma.“ Kveður Georg að verkefnin muni gera gæslunni kleift að halda við tækjum sínum, fjármagna þyrlukostinn og halda í reynt starfsfólk. Enn hefur LHG ekki þurft að segja upp fólki og segir Georg að jafnvel komi til greina að ráða fleira fólk til starfa á næstunni.

„Þetta kemur ekki til með að skerða eitt eða neitt hér á Íslandi,“ segir Georg ennfremur. Þau tæki og sá mannskapur sem færi út yrði hvort eð er ekki notaður hér heima vegna þess aðhalds í rekstri sem LHG býr við um þessar mundir eins og aðrar stofnanir. skulias@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert