Tchenguiz-bræður reiðir

Lögreglumaður ber skjöl út úr skrifstofu Vincents Tchenguiz í vikunni.
Lögreglumaður ber skjöl út úr skrifstofu Vincents Tchenguiz í vikunni. Reuters

Bræðurnir Robert og Vincent Tchenguiz eru sagðir afar ósáttir við aðgerðirnar, sem breska fjársvikalögreglan SFO greip til í vikunni þegar níu manns voru handteknir í Lundúnum og á Íslandi vegna rannsóknar á starfsemi Kaupþings í Bretlandi.

Breska blaðið Financial Times hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum, sem tengjast bræðrunum, að þeir telji að aðgerðirnar hafi verið ónauðsynlegar og ætlað að vekja sem mesta athygli. 

Er Robert Tchenguiz sagður vera reiður yfir þeim hnekki, sem orðstír hans hefur beðið og hann telji að SFO hafi ákveðið að grípa til aðgerða á þessum tíma vegna þess að Vincent bróðir hans ætlaði að halda mikla veislu í Cannes í vikunni. 

Breska blaðið Guardian segir í dag, að fjársvikalögreglan sé að rannsaka hvort Robert Tchenguiz hafi beitt sér fyrir því innan Kaupþings, að bankinn lánaði fyrirtækjum hans stórfé mánuðina áður en Kaupþing féll.

Þá beinist rannsóknin að því að leiða í ljós hvort misfarið hafi verið með eignir, sem settar voru sem veð fyrir lánunum og hvort fyrirtæki í eigu Tchenguiz hafi verið rekstrarhæf á þessum tíma.  

Blaðið hefur eftir heimildarmönnum, sem tengjast Tchenguiz, að þetta komi mjög á óvart þar sem Tchenguiz hafi ítrekað haldið því fram að hann hafi tapað gríðarlegum fjármunum á falli Kaupþings.

SFO hefur sagt að rannsóknin á Kaupþingi, sem hófst formlega í lok ársins 2009, beinist að þeim ákvörðunum, sem leiddu til þess að miklir fjármunir fóru út úr bankanum dagana og vikurnar fyrir fall hans. Financial Times hefur eftir lögmönnum, að handtökurnar í vikunni séu hluti af rannsóknarferli sem gæti tekið nokkur ár.

Guardian hefur eftir heimildarmanni, sem tengist einum hinna handteknu, að nokkrir þeirra hafi hunsað ráðleggingar lögmanna sinna og svarað spurningum, sem SFO lagði fyrir þá.

Sumir þeirra hafi fengið á tilfinninguna, að rannsakendurnir hefðu ekki getað framvísað tölvupóstum eða öðrum gögnum, sem tengdust þeim.

Frétt Guardian 

Frétt Financial Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert