Hvorki slys né eignatjón hjá Íslendingum

Frá hamfarasvæðum í Rikuzentakata í norðurhluta Japan.
Frá hamfarasvæðum í Rikuzentakata í norðurhluta Japan. Reuters

Samgöngur eru komnar í samt horf í Tókýó og grannt er fylgst með þróun mála í kjarnorkuverinu í borginni Fukushima. Sendiráð Íslands í Japan hefur fengið fullvissu um að enginn Íslendingur í landinu hafi slasast og að enginn þeirra hafi orðiði fyrir verulegu eignatjóni.

Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra Íslands í Japan, sem búsettur er í Tókýó, segir að eini Íslendingurinn sem vitað sé um á hamfarasvæðinu búi langt inni í landi og að hann hafi ekki orðið var við flóðbylgjuna.

Stefán segir að lífið gangi að mörgu leyti sinn vanagang í Tókýó, þar sem hann er búsettur. „Auðvitað er andrúmsloftið mjög dempað hérna eftir þessa skelfilegu atburði og fólk er enn mjög hrætt við eftirskjálfta. Á morgun mætir fólk síðan væntanlega til vinnu og þá má búast við rafmagnsskorti,“ sagði Stefán í samtali við mbl.is.

„Það er búið að gefa út tilkynningu um rafmagnsskömmtun, það verður líklega lokað fyrir rafmagn í 2-3 klukkutíma á hverju svæði fyrir sig og fólki er ráðlagt að spara rafmagn.“

Að sögn Stefáns eru samgöngur víða í ólestri úti á landsbyggðinni og hann segist ekki hafa orðið  var við matvælaskort. Hann segir að hreinsunarstarf sé nú víða hafið.

Hann segir yfirvöld rög við að gefa út tölur um fjölda látinna, slasaðra og þeirra sem er saknað. „Opinbera talan er í kringum þrjú þúsund. En í Miagy sýslu er um tíu þúsund manns saknað. Þar sópaði flóðbylgjan stóru svæði í burtu og það er erfitt að ímynda sér að margir hafi komist heilir á húfi úr því. En Japanar eru mjög varkárir og vilja hafa vaðið fyrir neðan sig áður en gefnar eru út yfirlýsingar.“

„Upplýsingagjöf hins opinbera hefur skánað með hverjum deginum. Stundum hefur fréttaflutningur verið misvísandi, til dæmis var í morgun verið að segja frá ástandinu í kjarnorkuverinu í Fukushima, en fulltrúar fyrirtækisins sáu meira og minna um fréttamiðlunina. Þetta hefur verið gagnrýnt mikið og nú hafa yfirvöld gefið betri upplýsingar, þannig að fólk átti sig á því hvað er að gerast,“  sagði Stefán.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert