Vill að bæjarstjóri Seltjarnarness víki

Seltjarnarnes.
Seltjarnarnes. www.mats.is

Lögmaður fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Seltjarnarnesbæ, sem hefur verið frá vinnu vegna eineltismáls í rúmt ár, krefst þess að bæjarstjórn víki bæjarstjóra úr starfi. Dómskvaddir matsmenn telja bæjarstjórann hafa sýnt ámælisverða háttsemi sem stjórnandi. RÚV greinir frá þessu.

Fram kemur að fyrrverandi framkvæmdastjóri tækni- og umhverfissviðs Seltjarnarnesbæjar, hafi verið frá vinnu samkvæmt læknisráði síðan í janúar 2010. Haft er eftir Jóhanni H. Hafstein, lögmanni framkvæmdastjórans, að ástæða fjarverunnar megi rekja til eineltis á vinnustað af hálfu Ásgerðar Halldórsdóttur, bæjarstjóra Seltjarnarness.

Matsmennirnir telja fullsýnt að í fjórum atriðum hafi Ásgerður ótvírætt sýnt framkvæmdastjóranum ámælisverða og ótilhlýðilega háttsemi sem stjórnandi. Þær breytingar til hins verra á líðan, högum og heilsu mannsins megi rekja til háttsemi bæjarstjórans. Bæjarstjórinn hafi beitt hann einelti í skilningi laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Þess er krafist að bæjarstjórn Seltjarnarness veiti Ásgerði formlega áminningu og þá er þess krafist að bæjarstjórn víki henni úr starfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert