Ásmundur Einar áfram í þingflokki VG

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, segir mikla eftirsjá að þeim Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur sem sögðu sig úr þingflokki VG í gær. Ásmundur hefur ekki tekið ákvörðun um neitt annað en að starfa áfram í þingflokknum.

„Það er mikill missir bæði af Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslasyni. Þau hafa verið og eru mjög öflugir málsvarar þeirra sjónarmiða sem Vinstrihreyfingin grænt framboð stendur fyrir, og eru mjög öflugir þingmenn. Enda hef ég verið sammála ýmsum þeim sjónarmiðum sem þau hafa verið að haldið uppi og við höfum verið samherjar í mörgum málum,“ segir Ásmundur.

Spurður hvort hann hafi einnig íhugað að segja sig úr þingflokknum segir Ásmundur: „Það hefur komið upp í hugann, en ég er í VG og hef ekki tekið ákvörðun um neitt annað.“

Hann kveðst aftur á móti vera sammála mörgu af því sem hafi komið fram í yfirlýsingu Lilju og Atla. T.a.m. varðandi gagnrýni þeirra á vinnubrögðin í Icesave-málinu og varðandi Evrópusambandsumsóknina, en Ásmundur segir að í ESB-málinu séu menn komnir langt út fyrir stefnu VG.

„Þau gengu út í gær og ég er enn í þingflokki VG. Ég skil þau vel. Þetta eru áfram mínir samherjar og áfram mínir félagar, og bandamenn þegar það kemur að málefnum og hugsjónum.“

Enginn vill halda á heitu kartöflunni

Spurður út í samstarf ríkisstjórnarflokkanna og stöðu ríkisstjórnarinnar í kjölfar ákvörðunar Atla og Lilju segir Ásmundur: „Mín skoðun er sú, að þegar umræðan um Evrópusambandsmálin fer að herðast - og það er að koma betur og betur í ljós á hvaða vegferð við erum þar - þá verði að endurskoða eitthvað af þeim málum,“ segir Ásmundur og bætir við að það samræmist ekki stefnu VG að taka við þeim gríðarlegu styrkjum sem flæði nú inn í landið.

„Það samræmist heldur ekki stefnu Vinstri grænna að nýta þessa styrki til þess að aðlaga hér og breyta stjórnsýslunni. Það samræmist ekki grunnhugsjónum Vinstri grænna að gefa eftir grundvallaratriði áður en samningaviðræður byrja. Eins búið er að gera í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, svo dæmi séu tekin.“

Hann telur að menn séu að átta sig á því að umsóknin sé komin út í miklar ógöngur og „enginn sem vill halda á þessari heitu kartöflu.“

Varðandi þá gagnrýni sem hefur beinst að Atla, að honum sé ekki lengur sætt á þingi vegna ákvörðunar sinnar að segja sig úr þingflokknum segir Ásmundur: „Þessi umræða kom ekki upp þegar Þráinn Bertelsson gekk í Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Þannig að mér finnst að Atli geti vel verið áfram á þingi, enda er hann áfram hluti af VG. Hann sagði sig ekki úr VG heldur einungis úr þingflokki VG.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert