Pálmi tapaði meiðyrðamáli

Svavar Halldórsson, Þóra Arnórsdóttir og María Sigrún Hilmarsdóttir í Héraðsdómi …
Svavar Halldórsson, Þóra Arnórsdóttir og María Sigrún Hilmarsdóttir í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Sigurgeir

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað Svavar Halldórsson og Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur, fréttamenn á Ríkisútvarpinu og Pál Magnússon útvarpsstjóra af meiðyrðakröfu Pálma Haraldssonar í Fons. Pálma er gert að greiða tvær milljónir í málskostnað.

Í yfirlýsingu, sem Pálmi sendi frá sér í kjölfar dómsins segir hann að þessi niðurstaða komi á óvart og valdi vonbrigðum. „Dómnum verður að sjálfsögðu áfrýjað," segir hann.

Pálmi krafðist þess að fimm tiltekin ummæli í frétt sem Rúv birti í fréttatíma 25. mars yrðu dæmd dauð og ómerk, en í þeim segir:

a.      „Milljarðar hurfu í reyk.“

b.      „2.500 milljónir króna, sem Pálmi Haraldsson fékk lánaðar hjá Glitni fyrir hrun, virðast gufaðar upp í flókinni viðskiptafléttu“.

c.       „...þegar hann fékk tveggja og hálfs milljarða króna lán frá Glitni rétt fyrir hrun.“

d.      „...og peningarnir eru týndir.“
e.       „...en þeir peningar finnast hins vegar hvergi.“

Í dómnum er vísað til tjáningarfrelsisákvæða stjórnarskrárinnar. Jafnframt er bent á ákvæði stjórnarskrárinnar um að  einkalíf manna, heimili og fjölskylda njóti friðhelgi.

„Þegar framangreindir hagsmunir skarast, rétturinn til tjáningar annars vegar og æruvernd hins vegar, ber m.a. að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr, stöðu þeirra aðila sem hlut eiga að máli og til þess hvort hið birta efni geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi því erindi til almennings,“ segir í dómnum.

„Þó að (Svavari) kunni við samningu fréttarinnar að hafa skjátlast að einhverju leyti í mati sínu á heimildum, en (Pálmi) hefur leitt nokkrar líkur að því, hefur ekki verið sýnt fram á að þær fullyrðingar, sem birtust í fréttinni, hafi verið settar fram í vondri trú. Verður í þessu sambandi að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr og til nauðsynlegrar umræðu í þjóðfélaginu um orsakir og afleiðingar bankahrunsins," segir síðan í dómnum.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 

Pálmi Haraldsson.
Pálmi Haraldsson. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert