Segja mikið tjón af verkfalli

Verksmiðjuhús Becromal á Krossanesi.
Verksmiðjuhús Becromal á Krossanesi.

Stjórn Becromal Iceland ehf. segir að mikið tjón muni hljótast af því ef starfsmenn í verksmiðju fyrirtækisins á Akureyri fari í verkfall. Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla um heimild til boðunar verkfalls starfsmanna.

„Becromal Iceland ehf. er eitt af yngstu fyrirtækjum landsins og hefur starfsmönnum þess fjölgað jafnt og þétt eftir því sem vélar verksmiðjunnar hafa verið gangsettar. Ljóst er að mikið tjón yrði af verkfalli hjá fyrirtækinu sem byggt hefur upp framleiðslu sem grundvallast á jafnri sólarhringsframleiðslu, alla daga ársins. Vegna eðlis starfseminnar er ljóst að frá fyrsta degi verkfalls yrði starfsemin stöðvuð með tilheyrandi tjóni fyrir eigendur, starfsfólk, þjónustuaðila og allt umhverfi verksmiðjunnar," segir m.a. í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

Þá segir, að forsvarsmönnum stéttarfélagsins sé jafnframt vel ljóst að deilt sé um hvort kjarasamningur aðila sé yfir höfuð fallinn úr gildi, sem sé forsenda lögmætrar verkfallsboðunar. Eðlilegra hefði verið að leiða þann ágreining til lykta fyrir félagsdómi áður en ákveðið var að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall.

„Það er einlæg von fyrirtækisins að þessari hættu verði afstýrt og að sameiginlegir hagsmunir starfsmanna og fyrirtækisins verði þannig settir í forgang," segir í yfirlýsingunni, sem Eyþór Arnalds, skrifar undir fyrir hönd stjórnar Becromal Iceland.                                                                                                                                                                                                                                                                      

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert