Jón á móti stjórnarráðsfrumvarpi

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bókaði andstöðu sína við afgreiðslu frumvarps um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Líkt og greint var frá fyrr í kvöld samþykkti Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, afgreiðsluna með fyrirvörum.

Á meðal breytinganna sem frumvarpið hefur í för með sér, verði það að lögum, er að ráðuneyti verða ekki lengur talin sérstaklega upp í lögum um Stjórnarráð Íslands. Þess í stað verður hámarksfjöldi þeirra tilgreindur, en stjórnvöld hafa hverju sinni ákvörðunarvald um hvaða ráðuneyti skuli starfrækt.

Ágreiningur hefur verið inann ríkisstjórnarinnar um sameiningu ráðuneyta í eitt stórt atvinnuvegaráðuneyti. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er andvígur þeim áformum, en með þessu frumvarpi yrðu vopnin að hluta slegin úr höndum hans.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum mbl.is bókaði Jón andstöðu sína við afgreiðslu frumvarpsins úr ríkisstjórn í gær, og gekk þannig skrefinu lengra en flokksbróðir hans, Ögmundur Jónasson. Jón áskilur sér jafnframt rétt til þess að berjast gegn málinu, bæði í þingflokki VG og í umræðum á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert