Opinberar framkvæmdir verði auknar um 50%

Jóhanna Sigurðardóttir í ráðherrabústaðnum.
Jóhanna Sigurðardóttir í ráðherrabústaðnum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þessir fundir sem hafa verið hér í dag hafa skýrt málin mjög og að mínu mati aðilar færst nær hver öðrum og það plagg sem við lögðum fram tel ég að muni liðka fyrir samningum,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætirráðherra, að loknum fundi með fulltrúum Alþýðusambands Ísland, Samtaka atvinnulífsins og opinberra starfsmanna.

Fundurinn fór fram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og á honum voru kynntar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum. Hófst fundurinn klukkan eitt og stóð í tæpa fjóra tíma.

Jóhanna sagði að aðgerðirnar myndu fela í sér „umtalsverð útgjöld fyrir ríkissjóð, bæði í tekjutapi og [beinum] útgjöldum, þannig að þau gætu skipt einhverjum tugum milljörðum króna.“ Sagðist hún vona að kjarasamningar næðust til þriggja ára, máli skipti að ná þeim stöðugleika sem því fylgdi. Með auknum hagvexti og frekari uppbyggingu myndi hluti útgjaldana koma til baka í ríkissjóð. 

„Þetta eru mjög mörg og viðamikil verkefni sem við erum að tala um, opinberar framkvæmdir margs konar. Við getum eiginlega ekki farið út í einstök atriði í þessu,“ sagði Jóhanna og sagði að um væri að ræða 50% aukningu á opinberum framkvæmdum frá því sem nú er ákveðið í fjárlögum. Hún vildi ekki spá fyrir um hve mörg störf myndu skapast.

„Markmið okkar er að ná hér upp fjárfestingum úr 13% í að minnsta kosti 18% og við erum að tala um að ná atvinnuleysinu á þessu samningstímabili, undir 5%,“sagði Jóhanna. Kvaðst hún bjartsýn á að þau atriði sem út af stæðu nú mætti leysa farsællega.  

Kvað Jóhanna að óljóst væri með framkvæmdir í vegagerð og nefndi í því sambandi framkvæmdir á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Vonaðist hún til þess að það myndi skýrast á næstu dögum og að frumvarp um málið í heild yrði lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi. Einstök verkefni voru ekki rædd á fundinum og komu framkvæmdir við álver í Helguvík því ekki til umræðu.

Ekki liggur fyrir hvenær efni aðgerðanna verður kynnt fjölmiðlum og almenningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert