Efnahagsbrotadeild færð undir sérstakan saksóknara

Ólafur Hauksson sérstakur saksóknari.
Ólafur Hauksson sérstakur saksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin samþykkti í dag frumvarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um sameiningu embættis sérstaks saksóknara og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum um embætti sérstaks saksóknara sem fela að meginstefnu til það í sér að embættinu eru falin þau verkefni sem efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra annast þ.e. skatta og efnahagsbrot, alvarleg auðgunarbrot, brot sem lúta að löggjöf um tekjuöflun hins opinbera, gjaldeyrismál, verðlags- og samkeppnismál, verðbréfaviðskipti, stjórn fiskveiða og önnur brot sem eðli máls samkvæmt teljast til efnahagsbrota.

Ríkislögreglustjóri mun hins vegar áfram rannsókna mál sem snert peningaþvætti.

Gert er ráð fyrir því í núgildandi lögum um  embætti sérstaks saksóknara að það starfi  tímabundið og getur ráðherra, að fengnum tillögum frá ríkissaksóknara, lagt til að embættið verði lagt niður hvenær sem er eftir 1. janúar 2011 og hverfi þá verkefni embættisins til lögreglu eða ákærenda eftir almennum ákvæðum lögreglulaga og laga um meðferð sakamála. Lagt er til í frumvarpinu að  þetta tímamark verði fært aftur til 1. janúar 2013.  Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að tíminn þangað til verði notaður til að huga að framtíðarskipan rannsókna á efnahagsbrotum.

Lagt til í frumvarpinu að hefja skuli endurskoðun á heildarskipulagi og tilhögun  rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum  í þeim tilgangi gera þær skilvirkari og markvissari og tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru í þessu skyni. Gert er ráð fyrir að innanríkisráðherra skipi nefnd  sérfróðra manna að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti til þess að gera tillögur um nýtt heildarskipulag og skal nefndin í störfum sínum hafa hliðsjón af skipan efnahagsbrotarannsókna á Norðurlöndum. Skal nefndin skila ráðherra tillögum ásamt greinargerð eigi síðar en einu ári frá gildistöku laganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert