Ævintýraleg byrjun á netaralli

Sigurður Viktor Hallgrímsson og Baldvin Sigurðsson landa úr Magnúsi SH …
Sigurður Viktor Hallgrímsson og Baldvin Sigurðsson landa úr Magnúsi SH um miðnættið í nótt. mbl.is/Alfons

„Þetta er ævintýri, eins og er. Netin eru stífluð og gengur hægt að draga,“ segir Sigurður V. Sigurðsson, skipstjóri á Magnúsi SH frá Rifi sem er á netaralli fyrir Hafró í Breiðafirði.

„Það er gott að þurfa ekki að hafa móral yfir því að fiska. Þetta er það eina sem maður getur fengið að veiða eins og maður vill,“ segir Friðþjófur Sævarsson, skipstjóri á Saxhamri, sem sér um Faxaflóann.

Bátarnir eru báðir gerðir út frá Rifi. 

Þurftu að skilja eftir tvær trossur

Netarall Hafrannsóknarstofnunarinnar er stofnmæling á hrygningarslóð þorsks. Sex bátar annast rallið. 45-60 trossur eru lagðar á hverju svæði og þeim dreift um helstu hrygningarslóðir þorsks. Helmingur er lagður á fyrirframákveðna staði, þá sömu ár eftir ár, en hinn helming staðanna fá skipstjórarnir að ákveða.

Byrjað var fyrsta apríl þannig að Magnús og Saxhamar eru rétt að byrja. „Þetta er ævintýri, eins og er, en við eigum eftir að fara víðar um svæðið og maður veit ekki hvort þetta er svona um allt svæðið,“ segir Sigurður á Magnúsi.

Áhöfnin á Magnúsi dró 5 trossur í gær og fengu um 32 tonn af slægðum þorski. Svo mikið var í netunum að þeir urðu að skilja 2 trossur eftir.  „Það lítur út fyrir sama fiskirí í dag en við erum með færri net,“ segir Sigurður.

Stefnir í besta netarallið

„Þetta er feikilega góð byrjun og með sama áframhaldi verður þetta besta netarallið sem verður hefur,“ segir Friðþjófur á Saxhamri.

Skilyrðin eru eins góð og hugsast getur. Mikið af þorski enda bæði loðna og síld á svæðinu, og veðrið mjög gott.

Saxhamar var með 30 tonn úr fimm trossum í gær og Friðþjófur segir að enn betra fiskirí sé í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert