Umboðsmanni verður svarað

Hluti Icesave-samninganefndarinnar.
Hluti Icesave-samninganefndarinnar.

„Við svörum umboðsmanni að sjálfsögðu og skýrum stöðu málsins fyrir honum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra en Umboðsmaður Alþingis hefur farið fram á skýringar fjármálaráðuneytisins á að hverju fjölmiðlar hafa ekki fengið svör um kostnað við gerð Icesave-samninganna.

Bæði Morgunblaðið og Ríkisútvarpið hafa óskað eftir upplýsingum um þennan kostnað og Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, lagði fram fyrirspurn á Alþingi um kostnaðinn nokkrum dögum eftir að Morgunblaðið bar fram sína ósk. Umboðsmaður vill fá svör í síðasta lagi 8. apríl.

Steingrímur segir að í morgun hafi verið fundað um þetta mál í ráðuneytinu. „Við viljum gera þetta alveg rétt samkvæmt lögum og reglum,“ segir hann og bendir jafnframt á að ráðuneytið hafi haft þá vinnureglu að svara fyrirspurnum á Alþingi á þinginu sjálfu.

Steingrímur tekur fram að kostnaðurinn sé ekki allur kominn í hús. „Við höfum verið að taka þetta saman en það verður að sjálfsögðu gerð grein fyrir því öllu þegar þær upplýsingar liggja fyrir,“ segir hann.

Spurður hvort upplýsingarnar verði birtar áður en Icesave-kosningarnar fara fram á laugardaginn segir hann: „Alla vega ekki svona sundurliðuð svör. Það held ég að sé alveg ljóst. Við höfum ætlað að veita þær upplýsingar sem við gátum á því stigi málsins sem fyrirspurninni yrði svarað en væntanlega með fyrirvara um að ekki væru öll kurl komin til grafar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert