Höfum misst af tækifærum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Rax

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að  stórkostleg tækifæri hefði gengið úr greipum Íslendinga á síðustu tveimur árum. Hann gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega við upphaf flokksþings Framsóknarflokksins í dag.

„Stórkostleg tækifæri gengu úr greipum Íslendinga á síðustu tveimur árum en eftir standa þó ómæld tækifæri framtíðarinnar. Þeim má ekki glata og ekkert er því til fyrirstöðu að hefja nú framsókn á ný með íslenska baráttuandann að vopni. Okkur skortir ekkert nema stjórnvöld sem hafa viljann, getuna og kjarkinn til að nýta tækifærin,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Stjórnvöld eiga að stuðla að samkennd, framtakssemi, heilbrigði og öllu því sem gerir líf okkar og samfélagið betra. En núverandi stjórnvöld líta á sig sem byltingarstjórn og byltingarstjórn þrífst ekki án óvina og ógna. Þess vegna er alið á tortryggni, reiði og hræðslu.

Þeim mun verr sem gengur að fást við vandann þeim mun meiri verður þörfin fyrir að kenna öðrum um. En stærsti glæpur valdhafans og þeirra sem að meira eða minna leyti ráða umræðu í samfélaginu er sá að draga úr trú þjóðarinnar á sjálfa sig,“ sagði Sigmundur Davíð.

Sigmundur Davíð sagði að allt mælti með því að Ísland ynni sig hraðar úr kreppunni nú en önnur lönd, en stefna stjórnvalda hefur verið nánast eins og hönnuð til að viðhalda kreppu og fæla frá fjárfestingu.

„Allt er gert öfugt við það sem telst skynsamlegt á krepputímum.
Því ríkir hér enn algjör stöðnun, og raunar samdráttur, einu og hálfu ári eftir að uppsveiflan átti að hefjast samkvæmt spám.

Skattar eru hækkaðir aftur og aftur, skattkerfið flækt og skuldamál einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga eru enn í ólestri, tveimur og hálfu ári eftir hrun.

Komið er í veg fyrir orkuvinnslu með öllum tiltækum ráðum og ríkisstjórnin hefur komið Íslandi á blað með löndum þar sem fjárfestar þurfa að óttast pólitíska óvissu og eignarnám. 

Ráðherrar skipta sér reglulega af störfum dómstóla og þegar ráðherrar eru sjálfir dæmdir fyrir að brjóta lög er því svarað á þeim nótum að pólitískar hugsjónir séu ofar lögum.

Undirstöðuatvinnugreinum, sem hefðu átt að draga vagninn út úr kreppunni, er haldið í varanlegri óvissu og  fyrir vikið fara sóknarfærin forgörðum - því enginn þorir að fjárfesta.

Ráðamenn lýsa því í erlendum fjölmiðlum að gjaldmiðill landsins sé ónýtur og Ísland ekki sjálfbjarga og að enginn muni vilja fjárfesta í landinu í fyrirsjáanlegri framtíð. Í öðrum löndum hefðu slíkir menn ekki enst í embætti út daginn.

Í landinu eru í gildi ströngustu gjaldeyrishöft sem sést hafa í Evrópu frá því að austur-þýska alþýðulýðveldið leið undir lok.

Og til viðbótar við alla þessa óáran dregur ríkisstjórnin fram hvert einasta mál sem er til þess fallið að sundra þjóðinni fremur en að sameina hana. Svo þykjast menn hissa á því að hér ríki stöðnun!“ sagði Sigmundur Davíð.

Hann sagði að Framsóknarflokkurinn mætti aldrei haga sér eins og pólitískt uppfyllingarefni, sem hjálparkokkur við þá hugmyndafræði sem ræður hverju sinni. Framsóknarflokkurinn yrði að skilgreina sig sem forystuflokk sem hvikaði ekki á óvissutímum, heldur tæki af skarið og  berðist hart fyrir því sem væri rétt.

Sigmundur Davíð sagði nauðsynlegt að skýra betur afstöðu Framsóknarflokksins til aðildar að Evrópusambandinu. „Í ljósi reynslunnar hefðum við þurft að ræða meira um það hvort við vildum vera þátttakendur í því sem Evrópusambandið snýst um fremur en hvaða breytingar við vildum gera á því. Ef í aðild að Evrópusambandinu felst eftirgjöf óskoraðra yfirráða yfir auðlindum erum við væntanlega nánast öll sammála um að það henti ekki Íslandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert