„Stærsti áfanginn í mínu lífi“

Sigurður Hjartarson við nýjasta safngripinn í Reðasafninu.
Sigurður Hjartarson við nýjasta safngripinn í Reðasafninu. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Þetta er einn stærsti áfanginn í mínu lífi og safnaraævi,“ sagði Sigurður Hjartarson, forstöðumaður Reðasafnsins á Húsavík. Í dag bættist í safnið reður af íslenskum karlmanni og á þá safni reði af öllum 46 tegundum íslenskra dýra og manna.

„Ég er búinn að safna í nærri 37 ár og þetta er eins konar lokahnykkur eða hápunktur. Ég átti þetta ekki og þetta er 46. og síðasta eintakið af spendýri á landinu og í kringum landið,“ sagði Sigurður. „Þetta er eins konar fullkomnun í bili.“

Sigurður las gjafabréf Páls Arasonar við athöfnina í dag þegar gripurinn sem Páll gaf var afhjúpaður. Bréfið  var skrifað 1996. Þar var Pétri Péturssyni lækni falið að sjá um afhendinguna og gerði hann það með glæsibrag, að sögn Sigurðar.

Sigurður kvaðst ekki vera hættur að safna, því safnarar hætti því aldrei. Alltaf megi fá betri eintök. Hann nefndi t.d. að reður af ísbirni sem safnið á hafi verið úrbeinaður og því nokkuð tætingslegur. 

„Það má alltaf fá betri eintök og sumir mundu segja að það þyrfti að fá yngra eintak en af Páli [Arasyni, sem ánafnaði safninu þessum líkamsparti af sér]. Hann var nú orðinn 95 ára. Þetta er bara áfangi á löngum ferli,“ sagði Sigurður.

Hann sagði ekki einstakt að sjá getnaðarlimi manna á söfnum, en það sé helst á læknasöfnum sem gjarnan geymi afbrigðileg líffæri. Sigurður vissi þó ekki til að svona líffæri sé annars staðar á safni fyrir almenning.

Dýraríkið er að breytast. Kaldsjávarhvalir eru t.d. horfnir og hlýsjávarhvalir að koma á Íslandsmið. Safnið á t.d. sýni af rákahöfrungi en tvö slík dýr hafa fundist hér. Sigurður kvaðst búast við að slíkum nýjungum muni fjölga. 

Reðasafnið á Húsavík verður opnað 20. maí að venju. Nærri 440 þúsund gestir hafa heimsótt safnið á tveimur og hálfu ári.

Heimasíða Reðasafnsins á Húsavík

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert