Stefnir í undirritun í kvöld

Fulltrúar ASÍ í húsi ríkissáattasemjara.
Fulltrúar ASÍ í húsi ríkissáattasemjara. mbl.is/Ómar

Kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins verða væntanlega undirritaðir í kvöld, að mati Halldórs Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ. Samninganefnd ASÍ var væntanleg í Karphúsið nú um þrjúleytið.

„Það er enn verið að vinna í sérmálum sambanda og félaga,“ sagði Halldór nú laust fyrir klukkan 15.00. Hann sagði vinnan haldi áfram og engar stórar snuðrur hafi hlaupið á þráðinn. Reynslan hafi hins vegar sýnt að vinna af þessu tagi taki tíma.

Ákveðið hefur verið að ljúka vinnu við þessa þætti áður en farið verður í að klára stóru sameiginlegu málin. Hann sagði rammann liggja fyrir í meginatriðum, þótt smáatriðin geti vissulega tekið tíma.

„Við höldum áfram og það er gert ráð fyrir því að samninganefnd Alþýðusambandsins verði komin hér í hús um þrjúleytið. Upp úr því getum við farið í þessi sameiginlegu mál,“ sagði Halldór.

Þegar samningar hafa náðst tekur við samlestur texta og hann tekur sinn tíma. Halldór kvaðst ætla að komi ekkert óvænt upp á verði samningar undirritaðir „í kvöld“. Hann vildi ekki tímasetja það nánar.

Samningamenn sátu við til um klukkan 3.30 í nótt og ákváðu þá að fara heim að hvíla sig. Fundarhöld hófust svo aftur á ellefta tímanum í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert