Kallaði þingmenn „grátkonur"

Mörður Árnason.
Mörður Árnason.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, var beðinn að gæta orða sinna á Alþingi í dag þegar hann kallaði þingmenn Sjálfstæðisflokksins grátkonur í umræðu um frumvarp um landsdóm.

Verið er að ræða frumvarp saksóknarnefndar Alþingis sem kveður á um að  þeir dómarar  sem eiga sæti í landsdómi þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun gegn ráðherra skuli ljúka meðferð þess máls þrátt fyrir að kjörtímabil þeirra sé á enda. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum síðdegis.

Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega og sagði Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður flokksins, m.a. í dag, að um sé að ræða gildishlaðna tillögu vegna þess að málarekstur gegn Geir H. Haarde sé hafinn og dómarar hafi m.a. kveðið upp einn úrskurð í málinu, Geir í óhag. Með því að styðja frumvarpið séu þingmenn að lýsa velþóknun á dómsstörfum þeirra.

Mörður Árnason, veitti andsvar við ræðu Sigurðar og sagði að sér væri engin sérstök ánægja af því að sjá grátbólna þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma upp og hafa áður snyrt sig í speglinum til að slá pólitískar keilur í málinu, sem væri aðeins afgreiðslumál til að bæta úr ágöllum, sem komið hefðu fram.

„En það er auðvitað lærdómsríkt að horfa á þá og er einn eftir hér til vinstri handar, hin mesta grátkona af öllum grátkonum Sjálfstæðisflokksin þegar hann vill það við hafa en vill brjóta lög og sveigja reglur þegar hann vill það við hafa, háttvirtur þingmaður Einar K. Guðfinnsson," sagði Mörður og bætti við að Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson hefðu þegar grátið.

Þuríður Backman, sem sat í forsetastóli, sló þá í bjöllu sína og bað þingmanninn að gæta orða sinna en Mörður sagði að þau orð hefðu verið fullkomlega saklaus. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert