Hvalveiðum frestað í óákveðinn tíma

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hvalveiðar hefjast ekki á hefðbundnum tíma í ár vegna ástandsins  í Japan og verður frestað um óákveðinn tíma en staðan verður endurskoðuð í ágúst, að sögn Kristjáns Loftssonar, framkvæmdastjóra Hvals hf.

Kristján er nýkominn frá Japan þar sem hann kynnti sér ástand mála í kjölfar hamfaranna í mars. Japanir glíma ekki aðeins við hrikaleg eftirköst risaskjálfta og flóðbylgju, sem kostaði þúsundir manna lífið og gerði um 500 þúsund manns heimilislausa, heldur er hætta á alvarlegri geislamengun frá kjarnorkuveri.

Kristján segir að vegna þessa hafi Japanir þjappað sér saman og sýnt mikla samkennd. Þeir sem hafi sloppið við hörmungarnar haldi ekki áfram eins og ekkert hafi í skorist heldur sýni samstöðu með hinum með því að halda sig til hlés, fari ekki út að skemmta sér og borði ekki á veitingastöðum heldur láti sér nægja einfaldan og ódýran mat heima. Erlendum ferðamönnum hafi fækkað um 90% og heimamenn hafi afpantað um 600.000 hótelbókanir frá 11. mars til þess tíma sem hann var í Japan. „Það þýðir ekkert fyrir okkur að veiða hval við þessar aðstæður,“ segir Kristján.

Eitt fyrirtæki flytur afurðirnar frá Hval inn til Japans en síðan vinna vinnslufyritæki þær fyrir neytendur. Tvö þessara fyrirtækja hurfu í hörmungunum auk þess sem ein niðursuðuverksmiðja fór sömu leið. Kristján segir að eigendur þessara fyrirtækja séu að reyna að finna nýja staði fyrir fyrirtæki sín en það gangi hægt. Á meðan verði hann að bíða átekta. „Það veit enginn hvað þetta ástand kemur til með að vara lengi,“ segir Kristján. Hann bendir á að veiðarnar hafi hafist 26. júní í fyrra en nú verði staðan skoðuð að loknu sumarfríi, seinnipartinn í ágúst eða september.

Um 15 manns hafa unnið við viðhald í vetur en um 150 manns hafa samtals starfað við hvalveiðarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert