Slitastjórnin kærir úrskurð

Höfuðstöðvar Landsbankans.
Höfuðstöðvar Landsbankans. mbl.is/Árni Sæberg

Slitastjórn Landsbankans mun kæra frávísunarúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í riftunarmáli gegn Halldóri J. Kristjánssyni til Hæstaréttar.

Herdís Hallsmarsdóttir, sem situr í slitastjórninni, er ósammála því að formgalli hafi verið á málatilbúnaði slitastjórnarinnar. Tapist málið í Hæstarétti verði annað mál höfðað gegn Halldóri.

Héraðsdómur gerði í úrskurði sínum athugasemdir við málatilbúnað slitastjórnarinnar, einkum matsgerð sem lögð var fram til að sýna fram á að bankinn hafi verið ógjaldfær þegar 100 milljónir voru greiddar í séreignalífeyrissjóð Halldórs. Taldi dómurinn að síðbúin matsgerð stangaðist á við meginreglur laga um einkamál. 

Herdís segir að slitastjórnin sé ósammála því mati héraðsdómarans að formgallar hafi verið á málatilbúnaði slitastjórnarinnar og því hafi hún ákveðið að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. „Þá er rétt að minna á að þetta er eingöngu úrskurður um form en ekki efni,“ segir hún.  

Fyrrum yfirmanni gert að greiða 90 milljónir

Varðandi efni málsins bendir Herdís á að í dag hafi fallið dómur í Héraðsdómi Reykjaness í máli slitastjórnar Landsbankans gegn Jóni Þór Gunnarssyni, en hann var millistjórnandi hjá bankanum. Herdís segir að í því tilviki hafi farið fram uppgjör á kauprétti Jón Þórs í september 2008 og hann hafi fengið greiddar 90 milljónir frá bankanum. Slitastjórn hafi krafist staðfestingar á riftun og krafist endurgreiðslu. Á það hafi dómurinn fallist þar sem um hafi verið að ræða gjöf og gert Jóni Þór að greiða slitastjórninni 90 milljónir auk dráttarvaxta. Þar með liggi fyrir efnisdómur í líku máli og höfðað var gegn Halldóri.

Slitastjórnin rekur nú sambærilegt mál í héraði gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni, hinum bankastjóra bankans og höfðað var gegn Halldóri J. Kristjánssyni.

Herdís segir að ef Hæstiréttur leggi sama mat á málið og héraðsdómur hafi það ekki önnur áhrif en þau að slitastjórnin muni höfða annað mál gegn Halldóri. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert