Setja marga fyrirvara

Fiski landað í Hafnarfjarðarhöfn.
Fiski landað í Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

„Fyrirvarar mínir eru varðandi úthlutanir ráðherra og sveitarfélaga,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar á Suðurlandi, um frumvörp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða.

Þingflokkar stjórnarflokkanna afgreiddu frumvörpin í gær og verða þau lögð fram á Alþingi von bráðar. Þingmenn Samfylkingarinnar settu þó fjölmarga fyrirvara.

„Ég tel að öll verðmyndun úr pottum eigi að verða á markaði,“ segir Björgvin, sem geldur varhug við pólitískri tengingu við úthlutun aflaheimilda frá ári til árs. „Það verður að teljast afar óheppilegt að láta stjórnmálamenn úthluta veiðiheimildum,“ bætir hann við. Best sé að markaðstengingin sé sem mest.

Björgvin styður þó meginatriði frumvarpanna, svo sem innköllun veiðiheimilda í einu lagi og „raunverulegt“ veiðigjald, eins og hann orðar það. Innköllun á einu bretti sé skynsamlegri en árleg fyrning hluta aflaheimildanna. Þetta sé ákveðin málamiðlun en veigamikið skref engu að síður.

Samfylkingarmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson er fulltrúi Norðausturkjördæmis en þar eru mörg afar öflug sjávarútvegsfyrirtæki. 

„Ég vil að úthlutað sé á markaðsforsendum, ekki pólitískum,“ segir Sigmundur. „Ég er einnig á því að leyfa þurfi í einhverjum mæli framsal kvóta, með takmörkunum þó. Tryggja þarf hagkvæmni og öflug fyrirtæki þurfa að vera til. Best væri að það væri metið af sérfræðinganefnd hvaða fyrirtæki séu svo vel rekin að þau verði að fá að vera áfram til.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert