Óhóflegur akstur óhagkvæmur

Umferð um Suðurlandsveg.
Umferð um Suðurlandsveg.

„Óhófleg notkun einkabílsins er óhagkvæm fyrir þjóðarheildina og hefur í för með sér sóun náttúrugæða,“ segir í ályktun sem fagnað var á flokksráðsfundi Vinstri grænna í Reykjavík í dag en undir hana skrifa Jón Torfason og Margrét Pétursdóttir, félagar í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. 

Orðrétt segir í ályktuninni sem Jón og Margrét eru skrifuð fyrir:

„Flokksráðsfundur VG haldinn 20. til 21. maí 2011 fagnar frumkvæði innanríkisráðherra um stuðning við almannasamgöngur. Óhófleg notkun einkabílsins er óhagkvæm fyrir þjóðarheildina og hefur í för með sér sóun náttúrugæða. En það er nauðsynlegt að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, byggi upp gott kerfi almenningssamgangna þannig að slíkur samgöngumáti verði raunhæfur valkostur fyrir alþýðu manna.“

Áhrif himinhás eldsneytisverðs á umferð í landinu hafa talsvert verið til umfjöllunar að undanförnu. Má í þessu samhengi rifja upp þá afstöðu Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns VG, að lækkun á bensínskatti um nokkrar krónur myndi ekki breyta miklu. Þá boðar ráðherrann aðrar aðgerðir til að mæta olíukreppunni, á borð við aukna notkun sparneytinna ökutækja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert