Segir stjórnarandstöðu tefja kvótaumræðu

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði á Alþingi í dag, að stjórnarandstaðan bæri ábyrgð á því, að ný frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða eru ekki til umræðu í þinginu í dag.

Björn Valur sagði, að full samstaða hefði verið innan endurskoðunarhópsins, sem fjallaði um fiskveiðistjórnunarkerfið, um meginniðurstöður. Á þeirri samstöðu byggðust nýju kvótafrumvörpin.

„Síðast í gær stóðu menn hér að orgunum, meðal annars fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og gerðu hróp að forsætisráðherra fyrir að málið væri ekki komið á dagskrá. En síðan beita þeir þeim brögðum sem þeir kunna  til að koma í veg fyrir að málið verði rætt hér í dag. Það er á ábyrgð stjórnarandstöðunnar, ekki vegna þess að (hún) bognaði undan álaginu sem fylgir því að starfa á þessum stað heldur vegna þess að þeim rann blóðið til skyldunnar; þeir ætluðu aldrei að vera með þegar á reyndi," sagði Björn Valur.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar að að það væri fyrst og fremst  vandræðagangur, skipulagsleysi, óstjórn og ósamkomulag stjórnarflokkanna, sem hefðu komið í veg fyrir umræðu um frumvörpin tvö.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að frumvörpin tvö væru fullkominn útúrsnúningur á niðurstöðu endurskoðunarnefndarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert