Spánverjar styðja landa sína á Austurvelli

Um 100 manns eru stödd á Austurvelli til að sýna …
Um 100 manns eru stödd á Austurvelli til að sýna mótmælum Spánverja stuðning. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hópur Spánverja búsettum á Íslandi er nú staddur á Austurvelli þar sem þeir mótmæla til stuðnings löndum sínum á Spáni. „Við viljum sýna í verki að við styðjum mótmælin á Spáni og erum stolt af því að vera á Íslandi því margir líta hingað eftir fyrirmynd," segir Victor Pajuelo, einn mótmælenda.

Um 100 manns eru á Austurvelli, þar af er á þriðja tug Spánverja, en hópur Íslendinga og fólki frá öðrum löndum sýnir þeim einnig stuðning. Auk þess eru taka tveir þingmenn þátt í mótmælunum, það eru þær Lilja Mósesdóttir og Birgitta Jónsdóttir, sem tók til máls og hélt stutta tölu í gjallarhorn.

Victor segir að mótmælin á Spáni séu hreyfing fólksins, enginn stjórnmálaflokkur standi á bak við þau. „Við erum bara almennir borgarar sem viljum breytingu. Við viljum hafa meiri áhrif á ákvarðanir sem snerta framtíð okkar. Stjórnmálamennirnir okkar eru orðnir svo fjarlægir fólkinu, það er stór gjá þarna á milli og þeir virðast búa í öðrum heimi en við."

Victor segir að tveggja flokka kerfið á Spáni sé staðnað og Spánverjar vilji sjá annað lýðræðisform. „Við viljum hafa meiri áhrif með þjóðaratkvæðagreiðslum, með borgarafundum. Það dugir ekki að hafa bara kosningar á fjögurra ára fresti því stjórnmálamennirnir gleyma því að þeir eru þarna vegna þess að við kusum þá. Þeir gleyma ábyrgðinni sem þeir bera."

Victor segist sjálfur hafa verið fullur efasemda um mótmælin í byrjun en nú sé hann stoltur af samtakamætti þjóðarinnar. „Þetta er sögulegt því annað eins hefur aldrei áður gerst á Spáni. Þetta byrjaði smátt en svo fór fólk að safnast saman og fleiri fóru að láta sig varða framtíðina." Aðspurður hvort honum finnist að Spánverjar muni hagnast af því að taka sér Ísland sem fyrirmynd, í ljósi reynslu hans af því að búa hér, segir hann erfitt að líkja því saman því aðstæður séu í raun mjög ólíkar. „En að minnsta kosti setti Ísland fordæmi. Spænskt samfélag var sofandi, fólk kvartaði kannski í hljóði en enginn gerði neitt. Við erum stolt af því að vera hér á Íslandi þar sem mjög margir líta til þess sem hefur gert hér."

Victor Pajuelo er meðal Spánverja sem mótmæla nú á Austurvelli.
Victor Pajuelo er meðal Spánverja sem mótmæla nú á Austurvelli. Mbl.is/Ómar Óskarsson
Birgitta Jónsdóttir þingmaður er meðal þeirra sem sýna mótmælunum á …
Birgitta Jónsdóttir þingmaður er meðal þeirra sem sýna mótmælunum á Spáni stuðning í verki á Austurvelli. Mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert