SFR og ríkið sömdu í nótt

Húsnæði ríkissáttasemjara.
Húsnæði ríkissáttasemjara.

SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu og samninganefnd ríkisins fyrir hönd fjármálaráðherra skrifuðu undir kjarasamning rétt fyrir kl. eitt í nótt. Samninganefndir aðila hafa setið við samningagerðina undanfarnar vikur og nú um helgina hafa nefndirnar setið sleitulaust við og látið reyna á það að ná samningum.

Í frétt frá SFR segir að samningurinn sé á svipuðum nótum og samningarnir sem aðilar á almennum markaði gerðu fyrr í sumar og gildir frá 1. maí 2011 til 31. mars 2014. Launahækkanir verða krónutöluhækkun eða prósentuhækkun eftir því hvor leiðin skilar félagsmönnum hagstæðari niðurstöðu. Þannig er félagsmönnum tryggð að lágmarki 4,25% hækkun þann 1. júní 2011, að lágmarki 3,50% hækkun þann 1. mars 2012 og að lágmarki 3,25% þann 1. mars 2013. Einnig kemur til 38.000.- eingreiðsla þann 1. mars 2014 fyrir þá sem eru í fullu starfi í janúar 2014 og hlutfallslega fyrir þá sem eru í hlutastarfi.

Samningurinn gerir einnig ráð fyrir 50.000.- eingreiðslu ef hann verður samþykktur, sem og álagsgreiðslum upp á 25.000.- á yfirstandandi ári. Einnig er gert ráð fyrir hækkunum á orlofs- og desemberuppbót.

Í samningnum er auk þess að finna leiðréttingar er snúa að vaktavinnufólki og fleirum.

Samflot bæjarstarfsmannafélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga gengu einnig frá kjarasamningi í gærkvöldi. Samningurinn gildir frá 1. maí 2011 til 30. sept. 2014.

Þá sömdu Kennarasamband Íslands, vegna Skólastjórafélags Íslands, og Samninganefnd sveitarfélaga um helgina. Samningurinn er til þriggja ára. Samningurinn byggir á sömu forsendum og þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið á undanförnum dögum á almennum og opinberum markaði.

Árni Stefán Jónsson, er formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, er formaður SFR.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert