„Íslendingar eiga makrílinn“

Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu.
Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu. mbl.is / Árni Sæberg

„Við höfum orðið vitni að því undanfarin ár að makríll hefur gengið úr efnahagslögsögu Evrópusambandsins og yfir í lögsögu Íslands. Ég er hræddur um að það geri hann að íslenskri eign. Það er tilgangslaust að kvarta yfir því,“ sagði Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu í gær.

Hannan sagði það hafa verið óheppni fyrir Evrópusambandið að makríllinn hefði leitað í auknum mæli yfir í íslensku lögsöguna og á sama tíma heppni fyrir Íslendinga. Kannski gerðist það innan fárra ára að þetta snerist við.

Í millitíðinni sagði Hannan að það væri ljóst að besta og öruggasta leiðin til þess að tryggja áframhaldandi tilvist fiskistofna og sjálfbæra umgengni um þá væri að viðurkenna eignarrétt þeirra þjóða sem hefðu yfirráð yfir viðkomandi hafsvæðum samkvæmt alþjóðlegum hafréttarlögum.

Þá sagði hann ennfremur að reynsla meðal annars Íslendinga, Norðmanna, Nýsjálendinga og íbúa Falklandseyja sýndi að gengið væri best um fiskimið þegar þau væru tengd við eignarrétt. Það væru gömul sannindi og ný að illa væri gengið um það sem enginn ætti.

Ræða Daniels Hannan í Evrópuþinginu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert