Sælgætið er oft dýrara í Fríhöfninni

Hvort sem það hefur stafað af meira úrvali, lægra vöruverði eða ónákvæmum verðsamanburði eiga margir minningar um hagstæð sælgætiskaup í Fríhöfninni.

Ef marka má lauslega úttekt Morgunblaðsins borgar sig ekki lengur að troða út verslunarpokann af sælgæti við heimkomuna.

Þannig reyndist sælgætið dýrara í Fríhöfninni í sjö tilvikum af ellefu. Verðið var í einu tilviki það sama en þrisvar bauð Fríhöfnin upp á betra verð. Hægt er að nálgast verð í Fríhöfninni á vefnum og geta viðskiptavinir flugvallarins því gert verðsamanburð áður en þeir leggja í hann og þannig tryggt sér betra verð á völdum vörum. Þá er valið handahófskennt og kann því ekki að gefa rétta heildarmynd, að teknu tilliti til allra vöruliða.

Lágverðskeðjurnar ódýrari

Til samanburðar var valið verð í lágverðsverslunum Krónunni og Bónus. Miðast verð í Krónunni við hilluverð í verslun keðjunnar í Árbænum sl. fimmtudagskvöld. Verð í Bónus byggist hins vegar á upplýsingum frá afleysingamanni verslunarstjóra í verslun keðjunnar við Hallveigarstíg í Reykjavík símleiðis í gær. Skal tekið fram að allar villur eru á ábyrgð blaðamanns.

Þá eru frekari gjöld umfram virðisaukaskatt ekki tilgreind í sælgætisdæmunum og skýrist það af því að starfsmaður tollstjóra treysti sér ekki til að taka þau saman með litlum fyrirvara síðdegis í gær. Einnig náðist ekki í Ástu Dís Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Byggjast tölur um skatta og gjöld á uppgefna vöruflokka því á upplýsingum í reiknivél sem er aðgengileg á vef tollstjóra.

Annað sem vekur athygli er að verð á ilmvötnum er í tveimur tilfellum af fjórum nánast nákvæmlega jafn miklu lægra í Fríhöfninni og í verslunum Hagkaups og sem nemur virðisaukaskattinum (25,5%). Nú eru dæmin aðeins fjögur en fjögur dæmi í viðbót veita frekari vísbendingu um þetta. Þar er um að ræða ilmvötnin Chanel Chance Eau Fraiche og Versace Bright Crystal en þau voru 36% og 24% dýrari í Hagkaup.

Þá voru herrailmvötnin Jean Paul Gaultier After Shave og Armani Attitude Extreme 23% og 26% ódýrari í Fríhöfninni. Þýðir það að verðmunurinn er í kringum virðisaukaskattinn (25,5%) í fimm tilvikum af átta.

Ódýrari myndavélar

» Verðkönnunin bendir til að talsvert hagstæðara sé að kaupa myndavélar og farsíma í verslun Elko á flugvellinum en í búðum keðjunnar á höfuðborgarsvæðinu.
» Munurinn er á bilinu 20 til 27% í dæmunum þremur og því ekki fjarri virðisaukaskattinum sem er 25,5%, líkt og á við um farsímana tvo.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert