Flugmenn mótmæla reglugerð

Mynd tengist frétt óbeint.
Mynd tengist frétt óbeint. Reuters

Evrópskir flugmenn áforma að taka sér mótmælastöðu fyrir utan höfuðstöðvar samgönguráðuneytis Evrópusambandsins í Lúxemborg í dag. Tilgangur mótmælastöðunnar er að krefja samgönguráðherra Evrópusambandsins um aukið öryggi flugfarþega í formi nýrra hvíldartímareglna sem fyrirhugaðar eru fyrir flugmenn í Evrópu. Vert er að nefna að íslenskir flugmenn ætla sér að taka þátt í aðgerðunum í dag. 

Í desembermánuði árið 2010 voru gerð ný drög að hvíldartímareglugerð atvinnuflugmanna í Evrópu. Flugmenn telja þau drög ekki nógu vel unnin og benda á að þau hafi verið gerð án tillits til niðurstöðu vísindamanna.

Í fréttatilkynningu sem Evrópusamband atvinnuflugmanna, ECA, gaf út segir að þreyta flugmanna er mögulegur orsakavaldur í 15 til 20 prósent alvarlegra flugslysa. Bent er á að ef ekki sé farið eftir þeim rannsóknum og staðreyndum er liggja fyrir við gerð hvíldartímareglugerðarinnar dragi það úr flugöryggi.

Evrópusamband atvinnuflugmanna, sem samanstendur af tæplega 40 þúsund flugmönnum, hafnar núverandi drögum að hvíldartímareglugerð flugmanna. Þess er krafist að núverandi drögum verði breytt til að stefna ekki flugöryggi í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert