Miklu meira en einfaldar viðræður

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. mbl.is / Ómar Óskarsson

Evrópusambandið gerir kröfu um að Ísland sýni fram á getu sína til þess að innleiða sameiginlega landbúnaðarstefnu sambandsins áður en viðræðum um aðild landsins lýkur. Þetta kom fram í máli fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB með fulltrúum Bændasamtaka Íslands s.l. miðvikudag að því er fram kemur í frétt á vef Bændablaðsins.

Fram kemur í fréttinni að fulltrúar Bændasamtakanna hefðu spurt hvað fælist í þessu og fengið þau svör að taka þyrfti fyrir reynsluverkefni sem félli að sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, gera áætlun um það og innleiða í landbúnaði og sýna loks fram á að eftirlitskerfi með því stæðist kröfur ESB. 

Í samtali við mbl.is segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, að þetta sé í samræmi við það sem fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar hafi sagt við samtökin á fundum fyrir ári og þau hafi vakið athygli á síðan. Ljóst sé að um sé að ræða miklu meira en aðeins einfaldar samningaviðræður við ESB um hugsanlega aðild Íslands.

Haraldur segir að fulltrúar ESB hafi verið alveg hreinskilnir með það á fundum með fulltrúum Bændasamtakanna hvert eðli viðræðnanna væri. Þá hafi ennfremur komið fram hjá þeim efasemdir um að Íslendingar gætu starfað eftir sameiginlegri landbúnaðarstefnu sambandsins.

Fram kemur í frétt Bændablaðsins að fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB hafi á fundum með fulltrúum Bændasamtakanna reynt að telja þeim hughvarf í afstöðu þeirra til aðildar að ESB en samtökin hafa eins og kunnugt er verið mjög andvíg henni.

Frétt Bændablaðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert