Leit á Lónsöræfum

Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

Björgunarsveit frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg á Höfn er farin til aðstoðar gönguhópi á Lónsöræfum. Hópurinn telur sjö manns og var hann á leið af Illakambi áleiðis í Kollumúlaskála en villtist af leið í mikilli þoku.

Fjarskiptasamband er við hópinn og engin hætta á ferðum. Hópurinn er vanur útivist og vel búinn. Fólkið er íslenskt, vant óbyggðaferðum og var að fylgja skálaverði í Kollumúla. 

Björgunarmenn áætla að vera komnir á svæðið eftir 3-4 klukkustundir. Á svæðinu er mikil þoka og gengur á með roki og rigningu.

Björgunarsveitin telur átta manns, að sögn Kristins Ólafssonar, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hann sagði vitað nokkurn veginn hvar hópurinn er líkast til staddur.

„Við þekkjum þetta svæði nokkuð vel. Þarna eru frekar brött fjöll sem afmarkar svæðið. En það er mikil þoka og getur orðið villugjarnt. Við þurfum að fara með réttan búnað og reyna að staðsetja hópinn,“ sagði Kristinn.

„Það er mjög mikil þoka, rigning og töluvert rok.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert