Vilja tryggja hagsmuni landbúnaðar

Haraldur Benediktsson formaður BÍ, Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri og Erna Bjarnadóttir …
Haraldur Benediktsson formaður BÍ, Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri og Erna Bjarnadóttir hagfræðingur samtakanna.

Nauðsynlegt er að tryggja hagsmuni íslensks landbúnaðar, að mati Bændasamtaka Íslands, komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Samtökin telja mikilvægt að hagsmunir bændastéttarinnar verði metnir í heild og með hliðsjón af byggðasjónarmiðum, neytendamálum og fæðuöryggi. Bændasamtökin hafa dregið upp varnarlínur sem þau telja lágmarkskröfur í yfirstandandi samningaviðræðum við ESB. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Í dag kom út bók eftir eftir Stefán Má Stefánsson, prófessor við lagadeild HÍ. En Stefán skrifaði bókina að beiðni Bændasamtakanna, samkvæmt fréttatilkynningu Bændasamtakanna.

Bókin ber heitið Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.

Er hluti af vinnu Bændasamtakanna í áratug

„Verkið er hluti af viðamiklu efni upplýsinga og rannsókna sem Bændasamtökin hafa unnið að í um áratug. Þar eru varnarlínur BÍ settar fram og rökstuddar með tilvísun í regluverk ESB og þeirrar hagsmunagæslu sem íslensk stjórnvöld þurfa að beita í aðildarviðræðunum.  Mikilvægt er að málefnaleg umræða fara fram um sérstöðu og kröfur Íslands nú þegar samningaviðræður eru formlega hafnar," segir í fréttatilkynningu.

Bændasamtökin munu óska eftir fundi með hinni sameiginlegu þingmannanefnd ESB og Íslands, næst þegar hún kemur saman á Íslandi til að kynna afstöðu sína og aðkomu að aðlögunarferlinu. Samtökin hafa einnig sent sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra bréf, þar sem óskað er eftir skýringum á hvernig staðið verði að mótun samningsmarkmiða Íslands og á hvaða forræði slík markmið yrðu endanlega mörkuð.

Bók Stefáns Más Stefánssonar, prófessor við lagadeild HÍ, um landbúnaðarlöggjöf …
Bók Stefáns Más Stefánssonar, prófessor við lagadeild HÍ, um landbúnaðarlöggjöf ESB og EES. Bókina skrifaði hann að beiðni Bændasamtakanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert