Áhrif gossins koma í ljós

Fíngerða askan fauk á haf út en sú grófari safnaðist …
Fíngerða askan fauk á haf út en sú grófari safnaðist fyrir. mbl.is/GSH

Láglendi slapp ótrúlega vel eftir gosið í Eyjafjallajökli en stór svæði á heiðum og fjallendi urðu fyrir miklu öskufalli, samkvæmt frétt á heimasíðu Landgræðslunnar. Áhrifin eru nú að koma í ljós.

Landgræðsla ríkisins hefur fylgst með áhrifum gjóskunnar á gróður og landið. Í ljós hefur komið að á heiðum uppi hafi askan safnast í dældir og gil. Þaðan barst hún í árnar í haustrigningum í þeim mæli að moka þurfti úr farvegum til að forða byggð og samgöngumannvirkjum.

Úttekt Veðurstofunnar og Landgræðslunnar sýna að enn er gríðarlega mikið af ösku á fjallendinu í Eyjafjöllum. 

„Í vetur hafa hins vegar orðið verulegar breytingar. Mikil og gróf gjóska hefur borist fram heiðarnar í nágrenni gosstöðvanna og sums staðar valdið miklum gróðurskemmdum og jarðvegsrofi. Dæmi er um að ¾ hlutar gróðurhulunnar hafi horfið ásamt þeim jarðvegi sem fyrir var.

Þessi heiðasvæði eru ákaflega viðkvæm og máttu vart við áföllum á borð við Eyjafjallajökulsgosið. Hið kalda vor sem fylgdi í kjölfarið í ár er enn frekara áhyggjuefni. Gróður virðist einnig hafa farið afar illa á bersvæðum við Markarfljót og á Þórsmerkursvæðinu. Þar hefur orðið mikið gjóskufok sem hefur valdið tjóni á trjágróðri, en einnig hefur lággróður farið illa, bæði vegna foks og gjósku sem lagst hefur yfir hann í vetur,“ segir m.a. í frétt Landgræðslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert