„Ekki taka læknana okkar“

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra. Ómar Óskarsson

„Ekki taka læknana okkar,“ er fyrirsögn viðtals norska fréttavefjarins ABC nyheter við Guðbjart Hannesson velferðarráðherra. Hann segir að Íslendingar geti ekki keppt við norsk laun

Í fréttinni segir m.a. að stjórnvöld á Íslandi hafi áhyggjur af því að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk yfirgefi landið. Ráðherrann sem beri ábyrgð á málaflokknum, þ.e. Guðbjartur, biðji norsk stjórnvöld og sjúkrahús um að sleppa því að leita eftir starfsfólki á Íslandi.

Guðbjartur sagði í viðtalinu að Norðmenn hafi hjálpað Íslendingum mikið í kreppunni, en hann biður þá að sækja ekki heilbrigðisstarfsfólk hingað. Vitnað er í frétt vefjarins frá því í morgun um mikla fjölgun Íslendinga sem óskað hafa eftir staðfestingu á menntun sinni í Noregi.

ABC Nyheter segir íslensk stjórnvöld hafa mestar áhyggjur af þeim fjölda lækna sem kynna sér störf í öðrum löndum.  Hér útskrifist einungis 40 læknar á ári en í fyrra hafi 34 íslenskir læknar beðið um staðfestingu á menntun sinni í Noregi en árið 2008 voru þeir einungis átta.

Sömu tilhneigingar gætir í Danmörku en í fyrra samþykktu heilbrigðisyfirvöld þar tólf íslenska lækna til starfa en tveimur árum áður einungis  fjóra.

Haft er eftir Guðbjarti ráðherra að enn sem komið er sé allt með eðlilegu móti hér, en menn hafi áhyggjur af því ef þessi þróun heldur áfram. Hann lagði áherslu á að lífi og heilsu Íslendinga sé ekki ógnað þrátt fyrir að margir læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafi flutt sig um set.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert