Sér fram á gjaldþrot

Jón Bjarki Magnússon.
Jón Bjarki Magnússon. mbl.is/Golli

Blaðamaðurinn Jón Bjarki Magnússon, sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag til greiðslu skaðabóta vegna ærumeiðinga, segir að hann verði mögulega að lýsa sig gjaldþrota í kjölfar dómsins, sem hann gagnrýnir harðlega.

Honum er gert að greiða 500.000 kr. í skaðabætur til Kim Gram Laursen vegna ummæla sem birtust í frétt í DV í nóvember sl. Þá skal Jón Bjarki greiða verjanda Laursen 750.000 kr. í málskostnað.

Í greininni var Laursen nafngreindur og var því m.a. haldið fram að hann hefði ofsótt íslenska barnsmóður sína og þrjár dætur, og að hann hafi beitt þær bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi.

Jón Bjarki hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar kemur fram að heildarupphæðin samsvari nær hálfs árs launum fyrir starf sitt hjá DV. 

„Undanfarin ár hef ég stundað nám við Háskóla Íslands og starfað hjá DV í hlutastarfi. Eins og gefur að skilja er ómögulegt fyrir mig að reiða af hendi slíka upphæð og ef svo fer sem horfir mun ég að öllum líkindum lýsa mig gjaldþrota,“ segir Jón Bjarki.

Þá segir hann að dómurinn komi sér ekki á óvart. Dómafordæmi hafi sýnt að blaðamönnum á Íslandi hafi verið gert að reiða af hendi háar fjárhæðir fyrir að hafa orðrétt eftir viðmælendum sínum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert