Bílstjórinn ekki rekinn

Rútan á kafi í Múlakvísl. 19 manns var bjargað eftir …
Rútan á kafi í Múlakvísl. 19 manns var bjargað eftir að bíllinn festist í ánni. mynd/ Bárður Einarsson

Það er fjarri sanni að bílstjóri rútunnar sem festist í Múlakvísl í gær hafi verið „rekinn“ eins og fram kemur í frétt á vef Ríkisútvarpsins í dag. Þetta segir Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri, sem staddur er við Múlakvísl.

Gunnar segir að þegar hann sá ástand rútunnar eftir óhappið í gær hafi hann farið beint í að finna ný tæki til að sinna flutningunum yfir ána, þar sem hann hefði ekki talið að rútan væri nothæf næstu dagana á meðan verið væri að hreinsa hana og laga.

Bílstjórinn, Björn Sigurðsson, var að vinna fyrir eiganda rútunnar, sem er skráður Árni Guðjónsson og hefur honum ekki verið sagt upp við þau störf, þótt Vegagerðin kaupi nú ekki þjónustuna af þeim félögum.

Í samtali við mbl.is segir Björn nokkra þætti hafa valdið því að óhappið í ánni í gær varð svona alvarlegt. Hann segir að Vegagerðin hafi ekki viljað kaupa af þeim þá þjónustu að upphækkaður jeppi fyrirtækisins færi ávallt á undan og kannaði vöðin. Það var gert fram á mánudag og var blaðamaður m.a. með honum í tveimur slíkum ferðum, í jeppanum.

Vegagerðin tímdi ekki að hafa jeppa á undan

„Þetta fórum við fram á til að gæta fyllsta öryggis, að við færum hverja einustu ferð á undan. Oft kom fyrir fyrsta daginn að ég bakkaði og fann nýtt vað en rútan stoppaði á meðan. Við vildum fá þennan bíl inn í vinnu líka, til að gæta fyllsta öryggis. Þeir tímdu því ekki,“ segir Björn. Bjarni Jón Finnsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á staðnum, hafi tekið þá ákvörðun. Hann hafi sagt að rútan „gæti bara elt hina“ trukkana sem væru að flytja bíla yfir.

„Ef við hefðum fengið að halda því áfram, þá fullyrði ég og skal standa við það hvar og hvenær sem er að þetta slys hefði aldrei skeð," segir Björn.

Eftir að erlend kona varð ofsahrædd í rútunni á mánudag kveðst hann hafa beðið um að áfallateymi yrði á staðnum, því von væri á hverju sem er. Því hafi verið lofað að það yrði komið á þriðjudagsmorgun, en af því varð ekki. Áfallateymið kom nokkru eftir slysið.

Breyttu farvegi árinnar án þess að láta vita

Þá segir Björn tvennt hafa stuðlað að því að svo fór sem fór. Í fyrsta lagi hafi Vegagerðin breytt farvegi árinnar, vegna vinnunnar við gerð nýrrar brúar. „Þeir fara svo með jarðýtu upp við brúarstæðið og ýta upp hól fyrir næstu staurastæðu og þeir breyta farvegi árinnar með því. Þeir sögðu okkur ekkert af því,“ segir Björn. Af þessum völdum hafi straumurinn aukist í austari álnum og hann grafið sig niður.

Björn segir að 20 mínútur hafi verið frá síðustu ferð yfir, á nákvæmlega sama stað, en í millitíðinni hafi állinn dýpkað um einn og hálfan metra, á að giska.

Kaðall sat fastur og tók langan tíma að losa

Þá segir Björn annað hafa skipt sköpum. Allir trukkarnir og rútan sjálf voru með kaðla framan á, bundna við stuðara. Einnig trukkur Björgunarsveitarinnar Víkverja, sem keyrði upp að rútunni í gær.

„Við vorum með hann hringaðan upp á spegilinn, aðstoðarmaður minn stökk strax upp og losaði kaðalinn og veifaði honum,“ segir Björn. Kaðallinn á bíl björgunarsveitarinnar hafi hins vegar verið fastur og einhverjar mínútur hafi tekið fyrir þá að losa hann, þegar hver sekúnda skipti máli.

„Á þeim tíma held ég bílnum í gangi, hann grefst alltaf meira og meira niður. Ég segi að ef þeir hefðu verið með kaðalinn kláran og getað fest hann í kaðalinn frá okkur, þá hefði ég geta losað mig upp með því að það hefði verið dregið í mig.“

Þá var það hins vegar um seinan og þurfti að drepa á rútunni áður en vatn færi inn á vélina. „En ég get sagt það að ef ég hefði verið á undan og bíllinn farið að sökkva hjá mér, þá hefði ég bakkað, rútan beðið á meðan ég hefði fundið annað vað, gætt fyllsta öryggis, en þessu var hafnað af vegagerðinni, þeir vildu ekki bæta við þessum kostnaði,“ segir Björn og er mjög ósáttur við að látið sé líta út fyrir að óhappið hafi verið á hans ábyrgð. Þá verði hann að svara fyrir sig.

„Einn reyndasti bílstjóri landsins“

Gunnar Gunnarsson segist enga skoðun geta haft á því hvort einhverjum sé að kenna að svo fór sem fór, fyrr en búið sé að rannsaka málið. Hann segir hins vegar enga ástæðu til að kenna bílstjóra rútunnar um það.

„Þetta er einn af reyndustu bílstjórum landsins og hefur keyrt um landið í áratugi. Það er harkalegt ef það á að fara að skrifa þetta á hann einn tveir og þrír, án þess að málið hafi verið skoðað," segir Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert