Gamla brúin áningarstaður ferðamanna

Ferðamenn skoða vegsummerki um hlaupið í Múlakvísl.
Ferðamenn skoða vegsummerki um hlaupið í Múlakvísl. mbl.is/Ómar

Rétt um vika leið frá því að gamla brúin yfir Múlakvísl fór í miklu hlaupi og þar til ný bráðabirgðabrú var tekin í notkun. „

Þetta er mjög spennandi að skoða þetta,“ segir Björgvin Jóhannesson, hótelstjóri Hótels Höfðabrekku í Mýrdal, en rústir gömlu brúarinnar eru orðnar áfangastaður margra ferðamanna sem um svæðið fara. „Fararstjórarnir [í rútubílunum] taka smá ræðu um það sem gekk á og sýna fólki aðstæður.“

Björgvin segir vegagerðarmenn hafa unnið mjög vel og verið snögga við smíði bráðabirgðabrúar yfir Múlakvísl og bókanir meðal ferðamanna að komast í samt horf á ný.

„Við erum náttúrlega mjög ánægð með hvað Vegagerðin, brúarvinnuflokkurinn og allir verktakar, sem komu að því að laga brúna á þessum nokkrum dögum, unnu stórkostlegt verk,“ segir Björgvin og bendir á að yfirlýsing vegamálastjóra þess eðlis að allt að þrjár vikur gæti tekið að laga þjóðveginn hafi verið ógætileg. „Það var mjög skaðlegt þegar sú frétt fór út í heim. Auðvitað fælist fólk frá að ferðast til lands þar sem samgöngur liggja niðri í allt að þrjár vikur.“ Björgvin bendir á að mikill fjöldi þeirra erlendra ferðamanna sem til landsins koma hafa í hyggju að ferðast hringinn um landið.

Talsverð fjölgun virðist hafa verið á ferðamönnum til landsins í sumar. Má t.a.m. nefna að fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum nemur um 50 prósentum. Björgvin segir þó þá fjölgun meðal ferðamanna ekki skila sér til landsbyggðar í þeim mæli sem vonast var til. „Flestallir sem ég hef talað við hér á Suðurlandi tala um mikla fækkun,“ segir Björgvin og nefnir einnig að Íslendingar séu lítið á ferðinni í ár. Að hans mati er fjölgun erlendra ferðamanna fyrst og fremst rakin til fólks sem stoppar í Leifsstöð í fáeina tíma og fer svo áfram í tengiflug.

Aðspurð hvernig sumarið hefur gengið segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir flesta í ferðaþjónustunni vera sátta en fjölgun ferðamanna er lítil úti á landi. Hún segir fjölgun meðal ferðamanna inn í landið í júnímánuði hafa aukist um 20 prósent. „Það virðist engin fjölgun vera úti á landi en það virðist vera fjölgun í Reykjavík.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert