Segir evru veita stöðugleika

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/GSH

Í viðtali við franska dagblaðið Le Monde í dag, segir Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra, að vandinn á evrusvæðinu sé ekki evrunni að kenna og segir evruna veita stöðugleika.

Viðtalið er birt í fullri lengd í íslenskri þýðingu á vefsíðu Evrópuvaktarinnar.

Þar er Árni Páll meðal annars spurður að því hvort ekki hefði verið hægt að velja aðrar leiðir til að efla efnahag landsins, en að taka hart á almenningi. „Skuldir heimila voru vísitölubundnar. Flest fyrirtæki höfðu tekið lán í erlendum gjaldmiðlum. Bankarnir voru gjaldþrota. Við urðum að takast á við öll þessi vandamál samtímis með því að stofna til mikils halla á fjárlögum - sem er þó afstæður í samanburði við það sem má sjá í öðrum Evrópuríkjum eða Bandaríkjunum. Til að ná jafnvægi eigum við ekki annan kost en að hækka skatta og að skera niður opinber útgjöld.,“ segir Árni. Hann segir núverandi ríkisstjórn leggja áherslu á að vernda þá verst settu eins mikið og hægt sé.

Spurður að því hverjir séu hagsmunir Íslands að því að ganga í ESB segir Árni það vera rökrétt að vera fullgildur aðili að sambandinu. Það dragi úr óstöðugleika okkar og auki samkeppnishæfni. En fyrst og síðast sé hagnaðurinn fólginn í sterkari gjaldmiðli, evrunni, sem muni veita „óendanlega meiri stöðugleika.“

„Ég segi við þá sem hafa áhyggjur á líðandi stundu af þeim erfiðleikum sem herja á ýmis Evrópuríki að það sé ekki evran sem sé vandamálið heldur hin ábyrgðarlausa stefna sem hefur verið fylgt,“ segir Árni ennfremur.

Hann segist sannfærður um að lausn finnist á tilhögun sjávarútvegsmála Íslendinga innan Evrópusambandsins og er bjartsýnn á að viðræðum verði lokið haustið 2013.

Viðtalið við Árna Pál


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert