Fréttaskýring: Stjórnsýsla skorin um 3%

Í fyrradag funduðu þingflokkar Samfylkingar og VG saman í húsakynnum …
Í fyrradag funduðu þingflokkar Samfylkingar og VG saman í húsakynnum VG við Aðalstræti. Glatt var á hjalla í fundarbyrjun. mbl.is/Ernir

Alþingismenn ræða nú um 1,5% niðurskurð í velferðarmálum á fjárlögum 2012, og 3% niðurskurð í stjórnsýslu almennt. Þetta sagði Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, í samtali við Morgunblaðið í gær, þar sem hún var á förum milli funda. Hún tók þó skýrt fram að þetta væri ekki fast í hendi, heldur enn sem komið er aðeins viðmið í umræðum þingmanna og tillaga þingmannahóps.

Til samanburðar má nefna að þegar fjárlagafrumvarp þessa árs, 2011, kom fyrst fram á Alþingi var í því gert ráð fyrir 5% niðurskurði á útgjöldum til velferðarmála og 9% niðurskurði til annarra mála. Í meðförum þingsins minnkaði sá niðurskurður hins vegar og í velferðarmálunum endaði hann á því að verða 3%.

Gæti orðið lítill niðurskurður

Samræður stjórnarþingmanna um fjárlagafrumvarpið eru þar að auki viðkvæmari nú en áður þar sem ríkisstjórnin hefur aðeins eins þingmanns meirihluta og hver þingmaður hefur því nokkurs konar neitunarvald gegn frumvarpinu. Svo getur því farið að niðurskurður á fjárlögum verði harla lítill þegar fjárlög verða sett í lok þessa árs, ekki síst í velferðarmálum.

Þingmenn Samfylkingarinnar funduðu áfram í gær um fjárlagafrumvarpið, en í fyrradag voru tillögur frá hópi sex þingmanna, að megindráttum í frumvarpinu, kynntar fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna á sameiginlegum fundi.

Í þingmannahópnum eiga sæti þrír þingmenn úr hvorum stjórnarflokki, sem jafnframt sitja í þeim þremur fastanefndum þingsins sem koma helst að fjárlagagerð. Úr fjárlaganefnd eru það Oddný og Björn Valur Gíslason. Úr efnahags- og skattanefnd Helgi Hjörvar og Árni Þór Sigurðsson og úr viðskiptanefnd þau Álfheiður Ingadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Oddný sagði að viðbrögð þingmanna við tillögum hópsins væru að mestu leyti góð en einnig væru þeir að „rýna til gagns“ og hefðu ýmsar athugasemdir fram að færa. Hún sagði það ekki rétt að skoðanir manna á því hvert vægi niðurskurðar ætti að vera í fjárlögunum miðað við vægi skattahækkana færi aðallega eftir flokkslínum milli Samfylkingar og Vinstri-grænna. Miklu heldur gengi það þvert á flokkslínur. „Þess vegna er meiri von til þess að við finnum jafnvægið á endanum,“ sagði Oddný.

Matarskattur ekki lagður til

Oddný neitaði því jafnframt að tillögur hópsins gengju út á breytingar á virðisaukaskatti, sem fælu meðal annars í sér stórhækkaðan skatt á matvæli. „Það er ekki tillaga hópsins,“ sagði hún, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist í vikunni hafa fengið það staðfest eftir mjög áreiðanlegum heimildum að til umræðu væri, í fullri alvöru, innan ríkisstjórnarinnar að hækka virðisaukaskatt á matvæli.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði það til við íslensk stjórnvöld í júní að virðisaukaskattslöggjöfinni hér á landi yrði breytt með þeim hætti að hann yrði flatur 20% á allar vörur, í stað þess að vera 7% á nauðsynjar og 25,5% á aðrar vörur.

Ekki verður séð af lestri yfirlýsinga stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninganna í vor, að hækkun eða breyting virðisaukaskatts valdi forsendubresti þeirra. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá þeim tíma sagði einungis að ekki væri ætlunin að breyta tekjuskatti einstaklinga á samningstímanum.

Þurfa að breyta vsk-kerfinu

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Þuríður Backman, þingmaður Vinstri-grænna, að ekki væri neitt farið að útfæra skattabreytingar í tengslum við fjárlög 2012 á þessu stigi og staðfesti að ekki hefði verið rætt sérstaklega um hærri virðisaukaskatt á matvæli.

„En við þurfum að endurskoða virðisaukaskattslöggjöfina hjá okkur og taka meira mið af því sem er í nágrannalöndum okkar og Norðurlöndunum og með hliðsjón af þeim atriðum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri hafa bent okkur á að þurfi að breyta,“ sagði Þuríður. Hún sagði það verkefni haustþingsins að skoða þau mál.

Ekki rætt á fundi flokkanna

„Það hefur auðvitað verið rædd breyting á virðisaukaskattskerfinu, en við áttum ágætan fund í gær með báðum stjórnarflokkunum og þar var ekki rætt um virðisaukaskattinn og það eru engin áform um að fara í matarskatt eins og sumir hafa verið að ræða um, að breyta honum eitthvað,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra við Mbl-sjónvarp eftir ríkisstjórnarfund í gær.

„Við þurfum að ná niðurstöðu í það að ná aðhaldi í ríkisfjármálum upp á 28 milljarða króna.

Allt var uppi á borðinu, en honum verður ekki breytt eða hér hækkaður matarskattur, það er alveg ljóst,“ sagði Jóhanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert