Mikið í húfi að gera hvalveiðar tortryggilegar

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

„Tilefnið var að ávíta ráðherrann fyrir það eitt að hann stóð í lappirnar og fylgdi áratuga stefnu okkar í auðlindanýtingarmálum á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það var nú allur glæpurinn,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í dag.

Tilefnið er sameiginlegur fundur þriggja þingnefnda sem haldinn var á dögunum um hvalveiðar Íslendinga, en þar var Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra harðlega gagnrýndur af þingmönnum úr röðum stjórnarliða fyrir framgöngu sendinefndar Íslands á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins.

„Þessi uppákoma lýsir inn í það ástand sem er á stjórnarheimilinu, hvernig  klofningur birtist okkur í aðskiljanlegum málum, og segir okkur það sem er viðblasandi: Hér er við völd ríkisstjórn sem er ófær um að stjórna vegna innbyrðis ósamkomulags, tortryggni og hjaðningavíga,“ segir Einar.

Inni í þetta spilar afstaðan til Evrópusambandsins að sögn Einars og klofningur í röðum vinstri-grænna í þeim málum og um leið réttur Íslendinga til þess að stunda hvalveiðar.

„Hvalveiðar eru bannorð í ESB. Átökin við ESB í aðildarviðræðum VG- og Samfylkingarstjórnarinnar snúast um rétt þjóðarinnar til nýtingar og stjórnunar á eigin auðlindum. Það er því mikið í húfi núna fyrir aðildarsinnana í stjórnarflokkunum að gera hvalveiðarnar tortryggilegar,“ segir Einar á heimasíðu sinni. 

Heimasíða Einars K. Guðfinnssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert