Vilja ekki ræða efnahagsvanda evruríkja

„Hvers vegna vilja ESB aðildarsinnar í stjórnarliðinu ekki ræða þá stöðu sem uppi er í gjaldmiðlasamstarfi Evrópuríkjanna? Þá staðreynd að samstarfið mun annað hvort liðast í sundur eða þjóðríkin framselja stóraukið vald til Brussel,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag.

Talsvert hefur verið herjað á Bjarna af stuðningsmönnum þess að Ísland gangi í Evrópusambandið í kjölfar þess að hann lýsti því yfir í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær að draga ætti umsókn Íslands um aðild að sambandinu til baka líkt og landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði á síðasta ári. Þar á meðal Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, og Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

„Íbúum ESB ríkja utan evrunnar líst ekkert á blikuna og vilja alls ekki inn í evruna. Er það virkilega eina framlag Björns Vals, Marðar og félaga við þessar alvarlegu aðstæður að gera máttlausa atlögu að mér persónulega?“ spyr Bjarni.

Facebook-síða Bjarna Benediktssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert