„Það er þjóðin sem velur“

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. GVA

Fulltrúi Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd segist ekki telja að tillögur leiðtoga Frakklands og Þýskalands um meiri stjórn á efnahagsmálum evruríkjanna hafi áhrif á aðildarviðræður Íslendinga að sambandinu. Þjóðin muni dæma um þetta sjálf þegar hún greiðir atkvæði um aðild.

„Ég sé ekki hvernig þetta ætti að hafa áhrif á aðildarviðræðurnar,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem á sæti í utanríkismálanefnd.

„Þetta gæti aftur á móti haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar að viðræðunum loknum, en það er þá þjóðin sem tekur afstöðu til þessa.“

„Evrópusambandið þróast auðvitað og breytist og það gerum við líka.“

Að sögn Valgerðar hefur tillaga fulltrúa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks um opna fundi utanríkisnefndar með utanríkisráðherra verið bókuð.

Hún segir utanríkisráðherra hafa gefið nefndinni skýrslu í gær um gang viðræðna, efni hennar sé bundið trúnaði. „En ég held mér sé óhætt að segja að viðræður gangi vel,“ segir Valgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert