Nýjar tekjur skila 29 milljörðum

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Reuters

Á næsta ári verður farið út í nýja tekjuöflun fyrir ríkissjóð sem nemur um 29 milljörðum, en þar af skilar sala eigna og arðgreiðslur tæplega 10 milljörðum. Fyrirhugað er að hækka umhverfisskatta, leggja nýjan skatt á fjármálastofnanir og leggja skatta á lífeyrissjóði. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.

Skýrslan er birt á vef Seðlabanka Íslands, en í henni er fjallað um stöðu Íslands eftir sjöttu og síðustu endurskoðun á efnahagsáætlun landsins. Í skýrslunni segir að markmiði um hallalausan ríkissjóð verði náð árið 2014 en ekki 2013 eins og gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun íslenskra stjórnvalda. Til að vinna að þessu markmið verði farið út í nýja tekjuöflun árið 2012 sem nemur 1,75% af vergri landsframleiðslu, en það eru um 29 milljarðar króna. Þar af séu 2/3 varanleg tekjuöflun.

Með skýrslunni fylgir bréf íslenskra stjórnvalda til Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, dagsett 16. ágúst, sem sent var í tengslum við sjöttu og síðustu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Þar segir að verið sé að undirbúa fjölbreyttar aðgerðir sem eigi að skila þessum auknu tekjum. M.a. verði umhverfisskattar hækkaðir, nýr skattur á fjármálastarfsemi verði kynntur og breytingar verði gerðar á skattlagningu einstakra lífeyrissjóða. Þá verði gerðar breytingar á stofni eignarskatts og kolefnisskattur verði gerður varanlegur, en hann er tímabundinn í dag.

Tekið er fram að ef markmið um eignasölu náist ekki á næsta ári verði að grípa til frekari aðgerða innan reikningsársins til að tryggja að áætlun um afkomu ríkissjóðs á árinu 2012 standist.

Skýrsla AGS um Ísland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert