Krónan ódýrust

Verslun Krónunnar í Mosfellsbæ
Verslun Krónunnar í Mosfellsbæ mbl.is/Rax

Allt að 28% verðmunur reyndist vera á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í átta matvöruverslunum síðastliðinn mánudag. Matarkarfan var ódýrust í Krónunni þar sem hún kostaði 10.103 krónur en dýrust í Nóatúni þar sem hún kostaði 12.912 kr. sem er 28% verðmunur eða 2.809 krónur.

Krónan og Nóatún eru báðar í eigu Kaupáss.

Lítill verðmunur var á verði matarkörfunnar á milli Bónuss, Krónunnar og Víðis, en karfan var aðeins 26 kr. dýrari í Bónus en í Krónunni, og 179 kr. dýrari í Víði, segir í tilkynningu frá ASÍ.

Verslunin Kostur Dalvegi neitar ítrekað þátttöku í verðkönnunum ASÍ og heimilar ekki starfsfólki þess að taka niður verð í verslun sinni.

Dæmi eru um mikinn verðmun í öllum vöruflokkum í þessari matarkörfu. Sem dæmi má nefna að 250 ml KEA-skyrdrykkur m/hindberjum&trönuberjum var ódýrastur 128 kr./st. hjá Bónus en dýrastur á 148 kr./st. í Nóatúni, sem er 16% verðmunur.

Morgunkornið Cheerios var ódýrast á 804 kr./kg hjá Fjarðarkaupum en dýrast á 1.254 kr./kg hjá Nóatúni, sem er 56% verðmunur. Íslensk gúrka var ódýrust á 365 kr./kg hjá Bónus en dýrust á 478 kr./kg í Fjarðarkaupum, sem er 31% verðmunur.

500 g poki af Merrild-kaffi var ódýrastur á 748 kr. hjá Fjarðarkaupum en dýrastur á 947 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 27% verðmunur. Einnig var mikill verðmunur á „ódýrasta kínakálinu“ sem var dýrast á 589 kr./kg hjá Samkaupum-Úrvali og ódýrast á 269 kr./kg hjá Bónus sem er 119% verðmunur.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert