Sundlaugarnar gerðar sætar

Til stendur að setja upp sjópott og hita gönguleiðir á …
Til stendur að setja upp sjópott og hita gönguleiðir á bökkum Laugardalslaugar. Eggert Jóhannesson

Sundlaugaverkefni Reykjavíkurborgar hefur verið hrint úr vör og verður ráðist í ýmsar endur- og viðbætur við almenningslaugar borgarinnar á næstu misserum. Hljóðar kostnaðaráætlun verkefnisins upp á 320 milljónir króna skv. endurskoðaðri fjárhagsáætlun.

Í tilkynningu frá borginni, undir yfirskriftinni Berfætlingar njóti iljayls, kemur fram að í þeirri vinnu sem ráðist verður í, felist allt frá endurnýjun fúgu og flísa, til byggingar eimbaðs á Ylströndinni í Nauthólsvík.

Þegar hefur verið lokið við ýmsar lagfæringar í Vesturbæjarlaug og Sundhöllinni en þar þurfti m.a. að gera við múrinn og mála, og eru frekari viðgerðir á dagskrá.

Við Laugardalslaug verða gönguleiðir á laugarbökkunum upphitaðar og að hluta til lagðar mjúku gúmmíefni en þá á einnig að setja upp sjópott, koma fyrir fleiri leiktækjum í barnalauginni og ráðast í fyrsta áfanga í að endurgera búningsaðstöðu laugarinnar.

Í Grafarvogslaug stendur til að endurgera eimbaðið en í Árbæjarlaug verður auk eimbaðsins ráðist í endurgerð nuddpotts og laugarlyftu. Við Breiðholtslaug er m.a. í skoðun að koma fyrir líkamsræktaraðstöðu og útiklefum.

Það sem á undan er talið er aðeins hluti af þeim aðgerðum sem á að ráðast í til að betrumbæta aðstöðu sundlaugagesta borgarinnar. Af öðru má nefna að til stendur að skoða hvort bæta þurfi aðgengi fyrir hreyfihamlaða en tillögur um bætt ferlimál verða unnar á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert